Magn þungmálma í moltu sem framleitt er í Gas- og jarðgerðarstöð Sorpu, GAJA, mælist yfir umhverfismörkum samkvæmt niðurstöðum efnamælinga. Hætt hefur verið að mæla magn plasts þar sem gert er ráð fyrir að það sé langt yfir mörkum.

Sorpa hefur birt niðurstöður úr fimm sýnatökum úr moltunni frá mars til maí á þessu ári. Í tveimur sýnanna má finna hátt magn kadmíums. Þá er í einu sýnanna hátt magn af blýi, sinki og nikkeli.

Að sögn Sorpu benda há þungmálmagildi til að spilliefni hafi borist í sorptunnur, til dæmis rafgeymar eða rafhlöður. Slíku á að skila sem spilliefnum á endurvinnslustöðvar. Í raun sé ekkert hægt að gera til að hreinsa spilliefni á borð við rafhlöðusýru úr úrganginum, sem verður að moltu, eftir að spilliefnunum er hent í ruslatunnur.

Upphaflega stóð til að GAJA gæti meðhöndlað allan heimilisúrgang og breytt í moltu. Markmið GAJA er meðal annars að koma í veg fyrir að metan sleppi út í umhverfið. Stefnt er á að byrja að safna lífrænum úrgangi til að hægt verði að nota moltuna og er það í ferli hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.