Sex­tán ára gamall sýr­lenskur ung­lingur var hand­tekinn í gær í Osló í Noregi af öryggis­lög­reglunni PST, grunaður um að skipu­leggja hryðju­verk í landinu. Sam­kvæmt öryggis­lög­reglunni bárust „ógn­vekjandi upp­lýsingar“ um hátt­semi drengsins og á­kveðið var að taka hann höndum. Hann er grunaður um tengsl við sam­tök sem kenna sig við íslamskt ríki.

Drengurinn var leiddur fyrir dómara í dag en þing­haldið var lokað sökum ungs aldurs hans og rann­sóknar­hags­muna. Farið var fram á tveggja vikna gæslu­varð­hald, með tak­mörkunum á sam­skiptum og heim­sóknum. Úr­skurðar dómara er að vænta síðar í dag. Heimilt er sam­kvæmt norskum lögum að fara fram á fjögurra vikna gæslu­varð­hald en það ekki gert sökum aldurs hans. Norska dag­blaðið VG hefur eftir heimildar­mönnum innan öryggis­lög­reglunnar að fleiri hand­tökur séu ekki úti­lokaðar.

Það var aug­ljós á­stæða til að láta til skarar skríða án tafar

„Það var aug­ljós á­stæða til að láta til skarar skríða án tafar svo við á­kváðum að fram­kvæma hand­töku nánast um leið og við fengum á­bendingu um málið,“ segir Thomas Blom, sak­sóknari öryggis­lög­reglunnar, við norska ríkis­út­varpið NRK.

„Á mið­viku­daginn bárust okkur svo ógn­vekjandi upp­lýsingar að sak­sóknari á­kvað að hafa hraðar hendur og stöðva það sem talið var skipu­lagning [hryðju­verka],“ segir hann enn fremur. Að­spurður hvort eftir­lit hafi verið með drengnum í ein­hvern tíma segir hann að upp­lýsingar sem leiddu til hand­tökunnar hafi borist frá eftir­lits­deild öryggis­lög­reglunnar en vildi ekki tjá sig frekar.

Drengurinn neitar sök og hefur ekkert tjáð sig við yfir­heyrslur. Hann var hand­tekinn án vand­kvæða í út­hverfi Osló. Að sögn lög­reglu var lagt hald á sönnunar­gögn, bæði á tölvu hans og heimili. Rann­sókn á sönnunar­gögnunum er ekki lokið og því enn of snemmt að segja til um hvers eðlis þau eru að sögn lögreglu.

Krefst þess að drengnum sé sleppt

Lög­fræðingur hans, Andreas Berg Fevang, krafðist þess fyrir dómi að skjól­stæðing sínum yrði sleppt án tafar þar sem aldur hans væri þess valdandi að ekki væri rétt­lætan­legt að hann yrði dæmdur í gæslu­varð­hald. Fevang hefur ekki viljað tjá sig frekar um málið.

Fjöl­skylda drengsins hefur rætt við NRK og segist ekki hafa neina vit­neskju um meintar fyrir­ætlanir drengsins. Ná­grannar segja fjöl­skylduna hafa verið til fyrir­myndar og ekkert bent til þess að drengurinn hefði nokkuð glæp­sam­legt í hyggju.