Sex­­tán ára gamall ung­lingur frá Sýr­landi var hand­­tekinn í gær í Noregi grunaður um að skipu­­leggja hryðju­­verk. Hann verður leiddur fyrir dómara við héraðs­­dóm Osló síðar í dag og hefur sak­­sóknari farið fram á að þing­haldið verði lokað að því er segir í frétt á vef norska dag­blaðsins VG. Hann er grunaður um tengsl við sam­tökin sem kenna sig við íslamskt ríki og kom til Noregs til að dvelja með fjöl­skyldu sinni.

Hans Sver­re Sjøvold, yfir­­­maður norsku öryggis­lög­­reglunnar PST, segir í sam­tali við norska ríkis­út­varpið NRK að hann vilji ekki tjá sig frekar um málið en að ein­stak­lingur hafi verið hand­­tekinn og talinn hafa haft í hyggju að fremja hryðju­­verk í landinu.

Verjandi hans, Andreas Berg Fevang, segir skjól­stæðingur sinn hafi neitað sök og krefst þess að vera sleppt úr haldi. Berg Fevang segir enn fremur að ó­hugsandi sé að fangelsa svo ungan ein­stak­ling.

Uppfært kl. 10:05: Martin Bernsen hjá norsku öryggislögreglunni segir við VG að ekki sé tímabært að fullyrða að hinn grunaði hafi tengsl við erlenda öfgahópa vegna rannsóknarhagsmuna.

Uppfært 11:30: NRK hefur rætt við meðlimu fjölskyldu drengsins og segja þeir að hann hafi verið handtekinn skömmu fyrir hádegi í gær. „Við vitum ekki hvers vegna hann var handtekinn. Við þekkjum ekki málið. Þetta kom mjög á óvart,“ segir fjölskyldumeðlimur drengsins.
Nágranni segir fjölskyldu hans afar indæla og börnin úr henni oft leikið sér í götunni. Hún hafi oft rætt við þau og ekki orðið var við neitt óeðlilegt.

Fréttin verður upp­­­færð.