Sextán ára gamall unglingur frá Sýrlandi var handtekinn í gær í Noregi grunaður um að skipuleggja hryðjuverk. Hann verður leiddur fyrir dómara við héraðsdóm Osló síðar í dag og hefur saksóknari farið fram á að þinghaldið verði lokað að því er segir í frétt á vef norska dagblaðsins VG. Hann er grunaður um tengsl við samtökin sem kenna sig við íslamskt ríki og kom til Noregs til að dvelja með fjölskyldu sinni.
Hans Sverre Sjøvold, yfirmaður norsku öryggislögreglunnar PST, segir í samtali við norska ríkisútvarpið NRK að hann vilji ekki tjá sig frekar um málið en að einstaklingur hafi verið handtekinn og talinn hafa haft í hyggju að fremja hryðjuverk í landinu.
Verjandi hans, Andreas Berg Fevang, segir skjólstæðingur sinn hafi neitað sök og krefst þess að vera sleppt úr haldi. Berg Fevang segir enn fremur að óhugsandi sé að fangelsa svo ungan einstakling.
Uppfært kl. 10:05: Martin Bernsen hjá norsku öryggislögreglunni segir við VG að ekki sé tímabært að fullyrða að hinn grunaði hafi tengsl við erlenda öfgahópa vegna rannsóknarhagsmuna.
Uppfært 11:30: NRK hefur rætt við meðlimu fjölskyldu drengsins og segja þeir að hann hafi verið handtekinn skömmu fyrir hádegi í gær. „Við vitum ekki hvers vegna hann var handtekinn. Við þekkjum ekki málið. Þetta kom mjög á óvart,“ segir fjölskyldumeðlimur drengsins.
Nágranni segir fjölskyldu hans afar indæla og börnin úr henni oft leikið sér í götunni. Hún hafi oft rætt við þau og ekki orðið var við neitt óeðlilegt.
Fréttin verður uppfærð.