Lög­reglu­maður í Ohio skaut í gær svarta ung­lings­stúlku til bana en stúlkan hafði reynt að ráðast á tvær konur með hníf. Konurnar sem ráðist var á hringdu sjálfar á lög­reglu og óskuðu eftir að­stoð. Mynd­efni úr búk­mynda­vélum var gefið út í gær þar sem frá­sögn lög­reglu var stað­fest.

Móðir stúlkunnar hefur nafn­greint hana sem Ma‘Khia Bry­ant en að sögn lög­reglu var hún 15 ára gömul. Barna­verndar­nefnd Franklin sýslu greindi þó frá því að Bry­ant hafi verið 16 ára og að hún hafi verið fóstur­barn í þeirra um­sjón.

Lögreglumaðurinn í leyfi

Í búk­mynda­vélunum sést Bry­ant haldandi á hníf að hraða sér í áttina að annarri stelpu sem féll síðan í jörðuna. Lög­reglu­maðurinn skaut fjórum skotum að Bry­ant þegar hún fleygði sér í áttina að hinni stelpunni.

Lög­reglu­maðurinn hefur verið sendur í tíma­bundið leyfi á meðan málið er til rann­sóknar en borgar­stjóri Colombus, Andrew Gint­her, sagði á blaða­manna­fundi um málið að að­gerðir lög­reglu­mannsins hafi verið til að vernda hina stúlkuna.

Sama dag og Chauvin var fundinn sekur

At­vikið átti sér stað sama dag og fyrr­verandi lög­reglu­maðurinn Derek Chau­vin var dæmdur sekur fyrir morð og mann­dráp í þremur liðum vegna dauða Geor­ge Floyd í maí í fyrra. Floyd, sem var svartur, lést eftir að Chau­vin kraup á hálsi hans í um níu mínútur við hand­töku.

Dauði Floyd vakti gífur­lega reiði í Banda­ríkjunum og víða annars staðar um heim og kölluðu mót­mælendur eftir breytingum vegna kerfis­lægrar mis­mununar gegn svörtum innan lög­reglunnar.