Tilkynnt var um tvö flugeldaslys í Reykjavík um hálfáttaleytið í gærkvöldi. Fyrst hlaut fimmtán ára piltur hlaut andlitsbruna eftir að flugeldur sprakk framan í hann í Háaleitis- og Bústaðarhverfi. Sjúkrabíll flutti drenginn á bráðadeild til aðhlynningar.
Seinna slysið átti sér stað átta mínutum seinna er þrettán ára piltur í Hlíðahverfi hlaut áverka á hendi eftir að flugeldur sprakk í hendi hans. Unglingurinn var fluttur með sjúkrabíl á bráðadeild til aðhlynningar.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Lögreglan hafði einnig afskipti af 14 ára stúlku vegna vörslu fíkniefna hálfáttaleytið í gærkvöldi. Málið var unnið með aðkomu móður og tilkynningu til barnaverndar.
Of margir gestir á vetingahúsi.
Um hálfníuleytið í gærkvöldi var veitingahús í miðbæ Reykjavíkur heimsótt þar sem tilkynnt hafði verið um of marga gesti á staðnum. Um brot gegn samkomubanni var að ræða. Tvö hólf voru á staðnum en of margir gestir í báðum hólfum.
Þá urðu lögreglumenn vitni að umferðarslysi í Kópavogi um klukkan hálftíu í gærkvöldi þegar ökumaður bifreiðar ók á ljósastaur. Maðurinn er grunaður um ölvun við akstur.