„Enn fremur þarf að þrengja að einkabílnum svo sem með aukinni gjaldtöku á bílastæðum og afnámi samgöngustyrkja fyrir jarðeldsneytisknúin ökutæki,“ segir í skýrslunni Kolefnisfótspor höfuðborgarsvæðisins sem lögð var fram á fundi Sambands íslenskra sveitarfélaga um miðjan mánuðinn. Skýrslan var unnin af ráðgjafarstofunni Environice.

Í skýrslunni er einnig bent á ýmsar aðgerðir sem geti stuðlað að samdrætti í losun. Meðal hugmynda er að ráðast í auglýsinga- og ímyndarherferð til að auka hlutdeild virkra samgöngumáta, gera samkomulag við stóra vinnustaði um einhvers konar ívilnanir eða aðstoð ef gerðir eru vistvænir samgöngusamningar við starfsfólk og að hætta að greiða bílastyrki þar sem púströrsbílar eru notaðir til aksturs. Þá er sett fram hugmynd um að bjóða samninga um frestun bílprófs í til dæmis þrjú ár gegn árskorti í strætó.

Skýrsluhöfundar gera ráð fyrir að þriðjungur unglinga taki tilboðinu og sé þannig komið í veg fyrir að 13 þúsund kílómetrar séu keyrðir.

Jón Kjartan Ágústsson, svæðisskipulagsstjóri höfuðborgarsvæðisins.
Mynd/SSH

Árið 2019 var losun vegna vegasamgangna á höfuðborgarsvæðinu 49 prósent af heildarlosun vegna vegasamgangna á landinu öllu. Á sama tíma voru íbúar höfuðborgarsvæðisins 64 prósent af íbúum landsins. Í skýrslunni er bent á að vegasamgöngur voru stærsti þátturinn í kolefnisspori höfuðborgarsvæðisins árið 2019. Þær eru einnig sá þáttur sem hvað mest áhersla er lögð á í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum, enda stærsti þáttur samfélagslosunar hér á landi.

Að auki hefur losun vegna vegasamgangna á landsvísu aukist verulega síðan 1990. Losunin jókst um 86 prósent frá 1990 til 2018.

Jón Kjartan Ágústsson, svæðisskipulagsstjóri höfuðborgarsvæðisins, segir í samtali við Fréttablaðið að tillagan sé vissulega áhugaverð. Varast beri að að draga of miklar ályktanir af henni enda sé þetta ennþá bara á hugmyndastigi. „Þetta er ekki eiginleg aðgerðaáætlun sem sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu ætla að grípa til heldur dæmi um aðgerð sem þau gætu gripið til.“

Hann bendir á að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu séu ólík, sum séu með álver, sum með hafnir og enn önnur ekki neitt af þessu. Sveitarfélögin hefðu því viljað opna stefnu sem næði vítt um málaflokkinn en einnig svokallað dótabox sem hægt væri að grípa til þegar hvert og eitt sveitarfélag færi í sínar aðgerðir.

Mögulegar viðbótaraðgerðir úr skýrslunni

  • Greiða leið þeirra sem vilja og geta nýtt sér aðra samgöngumáta en einkabílinn.
  • Byggja upp öflugri og jafnvel gjaldfrjálsar almennignssamgöngur.
  • Auglýsinga- og ímyndarherferð til að auka hlutdeild virkra samgöngumáta.
  • Auka aðgengi að metani, s.s frá urðunarstöðum.
  • Gera samkomulag við stóra vinnustaði um einhvers konar ívilnanir eða aðstoð ef gerðir eru vistvænir samgöngusamningar.
  • Bjóða samninga um frestun bílprófs í t.d þrjú ár gegn árskorti í strætó.
  • Auka gjaldtöku á bílastæðum og fækka gjaldfrjálsum stæðum.
  • Fjölga göngugötum, stækka bíllaus svæði og skilgreina losunarfrí svæði í miðbæjum.