Miðbæjarathvarfið, sem er samstarf velferðarsviðs, félagsmiðstöðva og lögreglu Reykjavíkur, voru með 15 starfsmenn í Laugardalnum yfir Secret Solstice helgina. Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar, segir að því miður hefðu þau orðið vör við unglingadrykkju á hátíðinni. „Það var talsverður erill í athvarfinu alla helgina.“

Ábyrgðin á forráðamönnum

Það kom Bjarna á óvart hversu margir unglingar á hátíðinni voru án forráðamanns. „Mestur tímin starfsmanna fór í að sinna unglingum sem voru forráðamannslausir á svæðinu.“

Hann tekur fram að sú krafa sé gerð að ungmenni undir 18 ára aldri séu í fylgd með forráðamönnum á hátíðinni einnig þeir unglingar sem eru undir áhrifum. „Það er mikilvægt að foreldrar og forráðamenn geri sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem fylgir að leyfa unglingum að taka þátt í slíkri hátíð án eftirlits forráðamanna.“

Samstarfið við hátíðina gekk vel að sögn Bjarna en samkvæmt honum brugðust starfsmenn hátíðarinnar eins vel við ábendingum og þau gátu.

Bjarni Brynjólfsson segir mikilvægt að foreldrar geri sér grein fyrir ábyrgðinni sem fylgir unglingum.

Ungmenni leituðu sér sjálf aðstoðar

Gestir Secret Solstice voru mjög jákvæð í garð starfsmanna athvarfsins og að sögn Bjarna upplifðu ungmenni öryggi við að sjá starfsfólk félagsmiðstöðva sem þau þekktu á svæðinu. „Unglingar leituðu til starfsfólksins, bæði vegna sjálfra eða vegna vina sem þurftu á aðstoð að halda.“

Þetta er í þriðja skipti sem Miðbæjarathvarfið er á svæðinu yfir hátíðina en frá árinu 2015 hafa starfsmenn félagsmiðstöðva skipulagt eftirlit á hátíðinni.

Jákvætt að hafa ekki næturdagskrá

Starfsmenn athvarfsins sögðu það vera jákvætt að skemmtanahaldi hafi lokið fyrr en áður og telja það vera rétt skref að hafa ekki næturdagskrá í Laugardalnum.

Markmið Miðbæjarathvarfsins er að stemma stigu við að börn og ungmenni séu eftirlitslaus úti eftir lögboðinn útivistartíma en einnig hefur athvarfið skipulagt leitarstarf og athvarf á hátíðum líkt og þessari og einnig 17. júní og Menningarnótt.

Ungmenni leituðu til starfsmanna Miðbæjarathvarfsins bæði vegna vina sinna og eigin ástands.