Ungir umhverfissinnar gáfu í gær út kvarða til að meta stefnu stjórnmálaflokkanna í umhverfis- og loftslagsmálum. Kvarðinn er hluti af verkefninu Sólin en að baki því stendur þverfaglegt teymi skipað Aðalbjörgu Egilsdóttur líffræðingi, Esther Jónsdóttur stjórnmálafræðingi og Sigríði Guðjónsdóttur félagssálfræðingi. Þær munu rýna í stefnu flokkanna yfir sumarið og gefa þeim einkunn á skalanum 0-100 út frá ýmsum þáttum er varða umhverfis- og loftslagsmál. Stefnt er að því að kynna niðurstöðurnar í byrjun september í tæka tíð fyrir alþingiskosningarnar 25. september.

„Okkur finnst nauðsynlegt að loftslags-, og umhverfismál almennt, verði í brennidepli í komandi kosningum, enda veltur framtíð okkar allra á heilbrigðu loftslagi og lífríki. Til að veita stjórnmálaflokkunum nauðsynlegt aðhald þarf almenningur að vera vel upplýstur, en kvarðinn mun sýna svart á hvítu styrkleika og veikleika í umhverfis- og loftslagsstefnum þeirra,“ segir Tinna Hallgrímsdóttir, formaður Ungra umhverfissinna.

Kvarðinn tekur tillit til þriggja meginþátta þegar kemur að því að meta stefnu stjórnmálaflokkanna; loftslagsmála, sem gefur hæst 40 stig, náttúruverndar, sem gefur hæst 30 stig, og hringrásarsamfélags sem gefur allt að 30 stigum.

Tinna Hallgrímsdóttir, formaður Ungra umhverfissinna.
Mynd/Aðsend

Tinna segir að kvarðinn muni gagnast stjórnmálaflokkum við að móta og endurskoða stefnu sína í loftslagsmálum og vera leiðarvísir fyrir flokka til að taka tillit til sjónarmiða ungs fólks þegar kemur að umhverfismálum. Hún telur að umhverfis- og loftslagsmál muni vega þungt hjá Íslendingum áður en þeir ganga til kosninga í haust.

„Umhverfismálin, sér í lagi loftslagsmál, eru áberandi í umræðunni núna og við sjáum að allir flokkar eru að leggja sig fram við að koma sinni nálgun á framfæri og sýna fram á vilja til aðgerða,“ segir Tinna.

Meðal þess sem stjórnmálaflokkum verður gefin einkunn fyrir í loftslagsmálum er hvort þeir hafi sett sér stefnu um að draga úr heildarlosun gróðurhúsalofttegunda innanlands. Samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum þarf losun að minnka um 7,6 prósent á ári á heimsvísu til 2030 eigi meðalhitastig jarðar ekki að hækka um meira 1,5°C til ársins 2100.

Í náttúruverndarflokki geta stjórnmálaflokkar meðal annars fengið stig ef þeir styðja ekki frekari virkjanir í þágu stóriðju en Ungir umhverfissinnar telja ekki nauðsynlegt að virkja meira og vilja heldur forgangsraða raforkunotkun á þann hátt að græn verkefni gangi fyrir.

Kvarðinn er hluti af verkefninu Sólin sem Ungir umhverfissinnar standa að.
Mynd/Aðsend

Í hringrásarsamfélagsflokki er stjórnmálaflokkum meðal annars veitt stig fyrir það hvort heildstæð aðgerðaáætlun fyrir íslenskt hringrásarhagkerfi með vísum sé til staðar í stefnu þeirra. Markmið hringrásarhagkerfis er að draga úr notkun hráefna í framleiðslu og lengja líftíma þeirra með skilvirkari nýtingu á hráefnum, hannaðri með hringrás í huga.

Tinna segir Unga umhverfissinna gæta fyllsta hlutleysis við einkunnagjöfina en félagið gerir meðal annars þær kröfur að einstaklingar sem vinna að verkefnum Sólarinnar hafi ekki tengsl við stjórnmálaflokka eða séu virk í stjórnmálastarfi.

„Í fyrsta lagi er gætt að því að þeir aðilar sem vinna að gerð kvarðans og gefa einkunn eftir honum séu ekki með tengsl innan stjórnmálaflokka. Í öðru lagi er fyllsta hlutleysis gætt þegar einkunn er gefin eftir kvarðanum með því að afmá nöfn flokka áður en stefna þeirra er metin. Einnig er gætt að samræmi í einkunnagjöf með því að láta ólíkt matsfólk fara yfir og reikna fylgni milli svara þeirra, það er áreiðanleika matsfólks,“ segir Tinna.