Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) munu bjóða djammþyrstum Íslendingum upp á frítt skutl úr miðbænum í kvöld á milli 22 og 1. Í tilkynningu frá SUS kemur fram að gjörningurinn sé gerður „vegna fordæmalauss ástands á leigubílamarkaðnum“.
„Skapast hefur neyðarástand á leigubílamarkaðnum á Íslandi. Stórt gat þarf að fylla en stjórnvöld boða algjörar lágmarksaðgerðir. Þetta ástand býður uppá að einstaklingar bíða einir í yfir klukkutíma eða taka rafhlaupahjól ölvuð úr bænum, keyra undir áhrifum áfengis og skutlaramenningin stækkar með tilheyrandi hættu - sérstaklega fyrir ungar konur,“ segir í tilkynningu sambandsins.
Ísland eftirbátur annarra ríkja
Núverandi leigubílalöggjöf er frá 2001 og að sögn SUS hafa lögin lítið breyst þrátt fyrir miklar tækniframfarir í geiranum og Ísland orðið eftirbátur annarra ríkja í að stuðla að eðlilegri samkeppni og atvinnufrelsi. SUS segjast því ætla að leggja sitt af mörkum til að berjast fyrir umbótum.
„Við ætlum að bjóða miðbæjargestum uppá skutl án endurgjalds en tökum á móti frjálsum framlögum til að safna fyrir túlkþjónustu til að auka aðgengi erlendra aðila að leigubifreiðamarkaðinum. En aðilar sem vilja sækja sér leyfi til að stunda leigubifreiðaakstur þurfa að sækja námskeið og þreyta próf. Námskeiðið og prófið er aðeins haldið á íslensku og ekki er greitt fyrir túlk. Sem er enn einn takmarkandi þátturinn í núverandi kerfi.“
Skora á ráðherra
Að lokum skora sjálfstæðismenn á Sigurð Inga Jóhannsson, innviðaráðherra, að svara kallinu og „færa löggjöfina á 21. öldina“. En ráðherra lagði nýlega fram frumvarp um að fjölga atvinnuleyfum fyrir leigubifreiðaakstur um hundrað á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum.
Daníel Orri Einarsson, formaður Frama félags leigubifreiðastjóra, hefur þó gefið lítið fyrir gagnrýni á kerfið eins og það er í dag og telur hagsmuni neytenda best borgið með núverandi löggjöf.