Ungir sjálfstæðismenn gagnrýna sóttvarnaraðgerðir ríkisstjórnarinnar í yfirlýsingu sem stjórn SUS sendi frá sér rétt í þessu. Þar lýsa þeir yfir „gríðarlegri óánægju með nýsettar samkomutakmarkanir og 10 manna samkomubann“ og spyrja jafnframt hvort frelsi sé forréttindi.
Stjórn SUS telja stjórnvöld ekki hafa sýnt nógu vel fram á að staða faraldursins hér á landi réttlæti núgildandi sóttvarnarreglur en undanfarnar tvær vikur hafa verið að greinast yfir 1000 smit á dag og er nýgengi innanlandssmita ný 4.210 á 100.000 íbúa.
„Aðstæður eru allt aðrar í dag en þegar 10 manna samkomubann var síðast í gildi. Þjóðin er fullbólusett gegn nýju og mun vægara afbrigði sem fylgir mun lægri innlagnartíðni, en í dag liggja aðeins 0,05% smitaðra inni á Landspítala með Covid-19,“ segir í yfirlýsingunni.
Þá telur SUS að ekki hafi verið tekið tillit til annarra mikilvægra samfélagslegra þátta þegar sett var á tíu manna samkomubann á borð við andleg efnahagsleg og félagsleg áhrif umræddra takmarkana. Að mati Ungra sjálfstæðismanna er eina leiðin að sýna fram á að fullar afléttingar séu endanlegt markmið.
„Sú samstaða, sem byggðist upp á sameiginlegum ótta við veiru sem enginn vissi nákvæmlega hvaða áhrif hefði á fólk, fæst ekki aftur. Eina leiðin til þess að ná víðtækri samstöðu að nýju er að sýna það í verki að markmiðið sé að aflétta takmörkunum.“
Yfirlýsingu Sambands Ungra sjálfstæðismanna má lesa í heild sinni hér að neðan.
Er frelsi forréttindi?
Stjórn SUS lýsir yfir gríðarlegri óánægju með nýsettar samkomutakmarkanir og 10 manna samkomubann. Að mati SUS hafa stjórnvöld ekki sýnt nægilega fram á að svo strangar takmarkanir séu í samræmi við stöðu faraldursins þrátt fyrir fjölda smita. Aðstæður eru allt aðrar í dag en þegar 10 manna samkomubann var síðast í gildi. Þjóðin er fullbólusett gegn nýju og mun vægara afbrigði sem fylgir mun lægri innlagnartíðni, en í dag liggja aðeins 0,05% smitaðra inni á Landspítala með Covid-19.
SUS telur að aðrir mikilvægir samfélagslegir þættir hafi ekki verið teknir til skoðunar við ákvörðun um samkomubann, svo sem andleg, efnahagsleg og félagsleg áhrif frelsisskerðinga sem hljóta að vega þungt þegar næstum tvö ár eru liðin frá því að fyrstu takmarkanir voru settar vegna veirunnar og enginn endir virðist vera í augsýn. Þá hafi ekki verið tekið nauðsynlegt tillit til aðstæðna ungs fólks sem hefur þurft að færa mjög miklar fórnir á undanförnum tveimur árum en ekki er útséð hvaða langvarandi áhrif það mun hafa.
SUS hefur þó í fyrri ályktunum bent á alla þessa þætti og mótmælt aðgerðum stjórnvalda þegar tilefni hefur verið til en mætt daufum eyrum þeirra. Þrátt fyrir að ekki sé hlustað er vert að benda á nokkra hluti. Það vita það allir sem fara út á meðal manna að þessar hertu reglur eru nú aðeins hársbreidd frá því að vera einungis í orði stjórnvalda en endurspeglast ekki í athöfnum almennings.
Sú samstaða, sem byggðist upp á sameiginlegum ótta við veiru sem enginn vissi nákvæmlega hvaða áhrif hefði á fólk, fæst ekki aftur. Eina leiðin til þess að ná víðtækri samstöðu að nýju er að sýna það í verki að markmiðið sé að aflétta takmörkunum. Það er hægt sé skynsemi og hófsemi beitt í ákvörðunartöku varðandi frelsisskerðandi aðgerðir.
Þrátt fyrir að heilbrigðisráðuneytið sé í höndum Framsóknarflokksins þá er Sjálfstæðisflokkurinn stærsti flokkurinn sem myndar þessa ríkisstjórn. Stjórn SUS neitar að trúa því að ráðherrar flokksins láti bjóða sér þessa stöðu mikið lengur. En þetta höfum við þó verið að benda á um nokkurt skeið. Við ítrekum því áskorun okkar, enn einu sinni, á ráðherra Sjálfstæðisflokksins að standa með frelsinu.
Fullbólusett þjóð, með innlagnarhlutfall sem nemur 0,05% getur ekki látið bjóða sér 10 manna samkomutakmarkanir tveimur árum eftir að veiran kom til landsins. Frelsi, hvort sem er til athafna, ferða eða funda, er ekki forréttindi. Frelsi í samfélagi manna er grundvallar mannréttindi.