Loftslagsaðgerða­sinnarnir Tinna Hallgrímsdóttir og Finnur Ricart Andrason voru fulltrúar Íslands á ungmennaráðstefnunni Youth4Climate: Driving Ambition sem fór fram í Mílanó í vikunni. Ráðstefnan var skipulögð á vegum ítölsku ríkisstjórnarinnar og Sameinuðu þjóðanna (SÞ), en um er að ræða fyrstu ráðstefnuna sem er haldin á vegum SÞ í raunheimum síðan Covid-faraldurinn hófst.

Ráðstefnan var haldin 28.-30. september og meðal þeirra sem tóku til máls voru aðgerðasinnarnir Vanessa Nakate og Greta Thunberg. Þar komu saman 400 ungmennafulltrúar víðs vegar úr heiminum og ræddu stefnumótun loftslagsmála. Útkoma ráðstefnunnar, í formi ályktana og tillagna, var kynnt fyrir ráðherrum sem voru mættir til að sækja ráðstefnuna PreCOP og munu síðan sækja COP26, 26. loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem fer fram í Glasgow í nóvember.

Tinna, sem er formaður Ungra umhverfissinna, segir kröfur unga fólksins vera skýrar. Þau vilji að ríki heimsins auki metnað sinn hvað varðar samdrátt í losun kolefnis, setji meiri fjármagn í loftslagsmál og auki aðgerðir til aðlögunar.

„Það er unga fólkið í dag sem mun takast á við verstu afleiðingar hamfarahlýnunar, en við sjáum einungis forsmekkinn af þeim núna í formi bráðnunar jökla, aurskriða, í úrkomuákefð og öðrum öfgum í veðurfari, súrnun sjávar og hækkaðri sjávarstöðu, ásamt þeim samfélagslegu og efnahagslegu breytingum sem þær hafa í för með sér. Það er því nauðsynlegt að taka tillit til sjónarmiða ungs fólks í ákvarðanatöku sem varðar loftslagsmál,“ segir hún.

Að sögn Tinnu verður komandi loftslagsráðstefna SÞ COP26 í Glasgow jafn mikilvæg og sú sem var haldin í París árið 2015.

„Við sjáum að landsframlög ríkja duga ekki til að halda okkur innan 1,5 gráða, hvað þá tveggja gráða, hlýnunar þrátt fyrir að meirihluti aðildarríkja hafi nýlega uppfært markmið sín. Það er því ákveðin úrslitastund sem mun eiga sér stað í Glasgow og mikilvægt að raddir ungs fólks fái hljómgrunn fyrir þær viðræður sem munu eiga sér stað þar í október fram í nóvember.“

Tillögunum vel tekið

Finnur segir áhrifafólkið sem var viðstatt ráðstefnuna hafa tekið vel í tillögur unga fólksins.

„Það var ótrúlegt að finna orkuna og drifkraftinn frá öllum fulltrúunum og tillögunum sem komu út úr umræðunum. Forseti COP26, ráðherrar og annað ráðafólk sem viðstatt var á síðasta degi ráðstefnunnar, tók vel í tillögurnar okkar og sagðist taka þær með sér inn í samningaviðræðurnar á COP26 í Glasgow í nóvember,“ segir hann.

Að hans sögn er þetta þó aðeins byrjunin og stefnir hann á að láta til sín taka á COP26 í Glasgow næsta nóvember.

„Vinnunni er ekki lokið og þessi ráðstefna er í raun bara byrjunin. Nú þurfum við að tryggja að tekið verði tillit til tillagna okkar á COP26 og í hverju landi fyrir sig. Ég hlakka mikið til að sækja COP26 og gera mitt besta til að koma þeim sjónarmiðum sem komu fram á þessari ráðstefnu inn í umræðuna þar,“ segir Finnur.