Ungi maðurinn sem var úrskurðaður í gæsluvarðhald í kjölfar líkamsárásar í Borgarholtsskóla hefur verið sleppt úr haldi eftir að Landsréttur sneri ákvörðun héraðsdóms í gær. Þetta staðfestir Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins.
Drengurinn var úrskurðaður í einangrun vegna átakanna í Borgarholtsskóla en lögreglan hafði sett fram kröfu um að þrjú ungmenni ættu að sæta einangrun á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði tveimur kröfum en úrskurðaði drenginn í einangrun í viku. Stóð til að hann myndi losna úr gæsluvarðhaldi á morgun þann 21. janúar en í gær tók Landsréttur fyrir málið og sneri ákvörðun héraðsdóms.
„Nú er enginn í gæslu vegna þessa máls,“ segir Margeir.

Að minnsta kosti sex ungmenni þurftu að leita aðstoðar á slysadeild eftir að ungur karlmaður mætti í skólann vopnaður hafnaboltakylfu og hnífa þann 13. janúar síðastliðinn. Til átaka kom milli unga mannsins og annarra nemenda og var í kjölfarið kallað á lögreglu, sjúkraflutningamenn og sérsveit. Þrjú ungmenni voru handtekin og sett í umsjá félagsþjónustunnar vegna ungs aldurs.
Afstaða, félag fanga, hafði gagnrýnt ákvörðunina harðlega. Guðmundur Ingi Þóroddsson formaður fordæmdi ofbeldið en sagði einangrunina geta haft alvarleg áhrif á andlega líðan drengsins. „Hér að ræða um ungt fólk og hefur Afstaða af því áhyggjur að það sé sett í gæsluvarðhald og einangrun.“