Tvær konur frá Krím­skaga, sem her­numinn var af Rússum árið 2014, hafa verið fundnar sekar um að hafa sungið þjóð­ræknis­legt lag til stuðnings Úkraínu. Mynd­band birtist á sam­fé­lags­miðlum af konunum syngjandi lagið, en þar á meðal var ung­frú Krím­skagi.

Mynd­bandið birtist á „story“ á Insta­gram þar sem Olga Valeyeva, ung­frú Krím­skagi, og ó­nefnd vin­kona hennar sungu lagið sem heitir Chevrona Kalyna.

The Guardian greinir frá að Valeyeva fékk sekt upp á 40 þúsund rúblur, eða um 96 þúsund krónur, á meðan vin­kona hennar fékk tíu daga fangelsis­dóm.

„Mynd­band birtist á netinu þar sem tvær stúlkur sungu lag sem er bar­áttu­söngur öfga­sam­taka,“ sagði í til­kynningu frá innan­ríkis­ráðu­neyti Krím­skaga sem birtist á sam­fé­lags­miðlinum Telegram í gær.

„Ég vissi ekki og áttaði mig ekki á því að það hefði verið þjóð­ræknis­legt og ég vildi ekki dreifa á­róðri með því að syngja það. Við sungum bara úkraínskt lag, við héldum að þetta væri bara gamalt lag sem við kunnum,“ sagði ó­nefnda konan.