Ungbarn er meðal látinna eftir eldsvoða í fjölbýlishúsi í París. Að minnsta kosti átta létu lífið en tala látinna gæti hækkað þar sem illa hefur gengið að komast á efstu hæðir hússins. Þrjátíu eru slasaðir, þar af þrír slökkviliðsmenn.

Greint var frá því í morgun að kona væri í haldi lögreglu grunuð um að hafa kveikt í húsinu og er hún sögð hafa verið undir áhrifum áfengis þegar hún var handtekin. 

Um er að ræða átta hæða fjölbýlishús í suðvesturhluta Parísar. Eldurinn kviknaði rétt eftir klukkan eitt í nótt og leitaði í kjölfarið hópur íbúa skjóls á þaki hússins og nærliggjandi húsþökum. Á þriðja hundrað slökkviliðsmanna voru kallaðir á vettvang og björguðu þeim sem voru í sjálfheldu á nærliggjandi þökum.

Talsmaður slökkviliðsins í París sagði aðstæðurnar á vettvangi hafa minnt á heimsendi, fjöldi hafi kallað á hjálp úr gluggum hússins. Um fimm klukkustundir tók að slökkva eldinn og hafa nærliggjandi hús verið rýmd.