Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá ætla að safna 30 þúsund undirskriftum fyrir 20 október. Þátttaka landsmanna í undirskriftasöfnuninni „Nýju stjórnarskrána strax!” hefur farið langt fram úr vonum og hefur nú tekist að brjóta 25 þúsund undirskrifta múrinn.

Katrín Oddsdóttir, formaður Stjórnarskrárfélagsins, segir umræðuna sterka.

„Ég held að umræðan sé sterk því að fólk áttar sig á því að þetta mál tengist svo mörgum réttlætismálum sem við sem samfélag þurfum að ná tökum á,“ segir Katrín í samtali við Fréttablaðið.

Unga fólkið vaknar til vitundar

Hún segir unga fólkið hafa heldur betur vaknað til vitundar. „Sem er ekki síst að þakka hóp ungs fólks sem berst fyrir nýju stjórnarskránni með Ósk Elfarsdóttur og Gunnhildi Fríðu Hallgrímsdóttur í fararbroddi.“

Aug­lýsing Gunnhildar og Óskar með þjóð­þekkta leikara í farar­broddi þar sem þeir ræddu fisk­veiði­stjórnunar­kerfið og stjórnar­skrána, vakti lands­at­hygli.

Gunnhildur Fríða hefur einnig staðið fyrir fræðslumyndböndum á TikTok þar sem hún fræðir fólk um nýju stjórnarskrána og svarar spurningum.

@guggarugga

Hvernig mynduð þið vilja sjá auðlindinni okkar skipt? ##islenskt ##nyjastjornarskrain

♬ original sound - Gunnhildur
@guggarugga

Ef alþingismenn eru her á tiktok, taggið þá hahaha ##fyp ##politics ##iceland ##islenskt

♬ original sound - Gunnhildur

Aukin umræða

Ungir sjálfstæðismenn hafa nú sett af stað sína eigin herferð um stjórnarskrána í baráttu gegn upp­lýsinga­ó­reiðu að því er fram kemur á vef SUS.

Katrín segir jákvætt að Ungir sjálfstæðismenn tjái sig um stjórnarskrána. „Mér finnst umræðan hafa aukist eftir að SUS fór að tjá sig, sem er jákvætt.“

Listviðburður um stjórnarskrána

Tæplega tíu ár eru liðin frá þjóðfundi, þegar nær þúsund manns komu saman í Laugardalshöll til að ræða innihald nýrrar stjórnarskrár og helstu þætti hennar. Voru þetta almennir borgarar, frá 18 ára til 91 árs að aldri og var kynjaskipting nánast jöfn. Auk þeirra komu að fundinum um 200 aðstoðarmenn.

Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá ætla ekki að halda sérstaklega upp á 10 ára afmælið en ætla að halda stóran listviðburð þann 3. október næstkomandi í Listasafni Reykjavíkur þar sem stjórnarskráin verður í forgrunni.