Víðir Reynis­son, segir að gengið hafi vel að ná til ungs fólks undan­farna daga. Komið hafi í ljós að unga fólkið sé ekki „alveg sofandi“ eins og virst hafi í um­ræðunni undan­farið. Þetta kom fram í fyrir­spurnar­tíma á blaða­manna­fundi al­manna­varna.

Líkt og Frétta­blaðið greindi frá í vikunni, furðaði Una Hildar­dóttir, for­maður Lands­sam­bands ung­menna­fé­laga, sig á um­ræðunni um mikinn fjölda smita meðal ung­menna. Því var meðal annars velt upp hvort þjóðfélagshópnum væri sama um faraldurinn. Mikill meiri­hluti þeirra sem nú er í ein­angrun eru undir fer­tugu.

Unu var svo í vikunni boðið á blaða­manna­fund al­manna­varna. Þar lagi hún á það á­herslu á að mikil­vægt væri að talað væri við ungt fólk en ekki til þess.

„Það er mikil­­­vægt að við komum í veg fyrir yfir­­­lætis­­­lega um­­­ræðu um ein­s­­taka þjóð­­­fé­lags­hópa og gefum þeim vett­vang til að tjá sig og sína upp­­­lifun,“ sagði Una.

Víðir segir að vel hafi gengið að ná til þessa hóps í sam­fé­laginu að undan­förnu.

„Það kom líka bara í ljós af sam­tölum okkar við hana [Unu] og aðra að unga fólkið er nú ekki alveg sofandi, það veit alveg hvað er að gerast og fylgist mjög vel með,“ segir Víðir.

„Kannski vorum við að van­meta unga fólkið frekar en að þau hafi ekki verið að hlusta.“