Slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu bjargaði páfagauknum Ara af húsþaki í gærkvöldi með hjálp frá ungri stúlku og vinkonu hennar Gló, sem er einnig páfagaukur.

Stúlkan hafði verið að passa páfagaukinn þegar hann slapp upp á þak og sat þar fastur. Að sjálfsögðu var kallað eftir aðstoð frá slökkviliðinu sem kannast við að bjarga dýrum úr klandri, þá sérstaklega köttum úr trjám.

„Það runnu tvær grímur á okkur en við sendum bíl á staðinn,“ segja slökkviliðsmenn.

Unga stúlkan með Ara og Gló.
Mynd: Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins

Páfagaukurinn Ari, sem er mjög stór eins og má sjá á myndunum, var ragur að koma niður og var því ekkert annað í stöðunni en að kalla á eftir aðstoð frá ungu stúlkunni og páfagauknum Gló.

Unga stúlkan og Gló fóru þá saman upp á þak með slökkviliðsmönnum til þess að sannfæra Ara um að koma niður. Sem betur fer endaði sagan vel.

„Í sameiginlegu átaki stúlkunnar, Glóar og tveggja slökkviliðsmanna féllst Ari á að koma niður í körfunni.“

Unga stúlkan fór sjálf upp á þak til að sannfæra Ara um að koma niður.
Mynd: Slökkviliðið
Ari vildi ekki koma niður fyrr en unga stúlkan og Gló fóru upp á þak með slökkviliðinu.
Mynd: Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins