Ung söngkona var skotin til bana í Mexíkó í síðustu viku. Sá sem er grunaður um verknaðinn er eiginmaður hennar, en hún er talin hafa verið að reyna að sækja um skilnað. New York Post fjallar um málið.

Yrma Lydya var einungis 21 árs gömul er hún var myrt í einkaherbergi á japönskum veitingastað í Mexíkóborg síðastliðinn fimmtudag. Jesus Hernandez, 79 ára gamall eiginmaður hennar, er grunaður um að hafa skotið hana þrisvar sinnum í bringuna eftir rifrildi þeirra á milli.

Í kjölfarið á Hernandez, ásamt lífverði sínum, að hafa gert tilraun til að flýja vettvang á lúxusbifreið. Það hafi þó ekki tekist og þeir stöðvaðir af lögreglunni. Hann á þó að hafa   gert tilraun til að múta lögregluþjónunum í að sleppa sér.

Greint hefur verið frá því að í apríl hafi Lydya leitað til lögmannsstofu til að sækja um skilnað, en svæðismiðlar greina frá því að hún hafi haft meðferðis gögn sem sönnuðu að hún hafi verið beitt heimilisofbeldi.

Fyrir dómara hefur lögfræðingur Hernandez neitað sök í málinu.

Líkt og áður segir var Yrma Lydya söngkona. Hún hafði gefið út eina plötu og átti að koma fram á tónleikum í Kaliforníu um næstu helgi.