Karlmaður fékk flogakast í strætó rétt eftir klukkan hálf sex í kvöld. Hann var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar. Þetta staðfestir Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó.

Maðurinn var um borð í strætó á leið 6, sem var á leið frá Grafarvogi að Hlemmi. Hann fékk flogakast og datt úr sæti sínu þegar vagnstjórinn tók beygju. Vagninn, sem var þá staddur á Langarima, var þá stoppaður og maðurinn settur í læsta hliðarlegu.

Kallað var þá í sjúkrabíl sem var fljótur á svæðið og flutti manninn á sjúkrahús til aðhlynningar. Hann var með armband sem sýndi að hann væri flogaveikur.

Guðmundur segir að stutt hafi verið í næsta vagn sem kom og sótti hina farþegana. Ekki er vitað um líðan mannsins eins og er.

Uppfært: Í upprunalegu fréttinni stóð að um unga konu væri að ræða. Það var rangt. Um misskilning var að ræða hjá stjórnstöð strætó og upplýsingafulltrúa.