Hin 35 ára gamla Luz Raquel Padilla Gutiérrez lést þremur dögum eftir að nágranni hennar helti alkóhól lausn yfir hana og kveikti í henni.

Þetta kemur fram á fréttavefnum El País en atvikið átti sér stað í Guadalajara í Jalisco fylki í Mexíkó. Mikil reiði hefur gripið um sig í landinu eftir atvikið en ofbeldi gegn konum er mjög algengt í Mexíkó. Samkvæmt tölum El País er ellefu konur myrtar á dag í landinu og hafa 17 konur verið myrtar í Jalisco fylki en 479 á landsvísu á þessu ári.

Var pirraður á 11 ára einhverfum syni hennar

Gutiérrez hafði tilkynnt nágranna sinn til yfirvalda en hann hafði haft í hótunum við hana þar sem hann var pirraður á hávaða sem kom frá 11 ára syni hennar sem greindur er með einhverfu. Þegar yfirvöld sýndu máli hennar lítinn áhuga ákvað hún að birta myndir á samfélagsmiðlinum Twitter sem sýndu veggjakrot sem nágranni hennar hafði málað á sameign íbúðarhúss þeirra.

Á veggnum sést skrifað meðal annars „Ég ætla að brenna þig lifandi“ og „þú munt deyja tík“

Tíst Gutiérrez mætti þýða lauslega svona: „Hversu lengi þarf ég að lifa í ótta að eitthvað gæti komið fyrir mig eða fjölskyldu mína? Árásarmaður minn gengur enn laus í borginni og gæti skaðað einhvern.“

Meðlimir hreyfingarinnar „I take care of Mexico" mótmæltu og kröfðust réttlætis vegna morðsins á Luz Raquel Padilla Gutiérrez
Mynd/epa

Gutiérrez fékk þó engan stuðning frá yfirvöldum vegna málsins en hún hafði meðal annars beðið um stuðning frá lögreglunni sem taldi hótanirnar gegn henni ekki nægilega alvarlegar.

Þann 16. júlí hellti nágranni hennar svo úr stórum brúsa fullum af alkóhól upplausn yfir hana og kveikti í henni á almenningstorgi með þeim afleiðingum að hún hlaut brunasár á meira en 90 prósent af líkama sínum. Þrátt fyrir tilraunir lækna til þess að bjarga henni lést hún af sárum sínum þremur dögum seinna á spítala.

Samkvæmt sjónvarvottum voru það fjórir menn og ein kona sem tóku þátt í árásinni en meðal þeirra var nágranni Gutiérrez.