Þetta kemur fram í bréfi Rössler til íslenskra stjórnvalda. Segir hún að Alþjóðaráðið um minnisvarða og sögustaði (ICOMOS) og Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin (IUCN) harmi að ekki hafi verið lagt mat á áhrif framkvæmdarinnar á umhverfið og á heimsminjar. Þá skorti heildaráætlun um umferð.

„Að auki þá gæti framkvæmdin við Gjábakkaveg til lengri tíma litið leitt til hættu á mengun vatnsins í Þingvallavatni,“ skrifar Rössler.

Einar Á. E. Sæmundsen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, segir stækkun Gjábakkavegar einmitt leiða til minni hættu á að mengun berist í Þingvallavatn. Umferð í gegn um þjóðgarðinn fari nú öll um Gjábakkaveg því veginum við vatnið hafi verði breytt í botnlanga.

Varðandi mat á umhverfisáhrifum segir Einar að það hafi upphaflega verið sett í lögformlegt ferli af Vegagerðinni. „Það voru eiginlega allar stofnanir sem sögðu þetta þannig framkvæmd að hún þyrfti ekki að fara í fullt umhverfismat,“ segir hann. Þetta verði útskýrt fyrir UNESCO. „Það örlar á misskilningi í bréfinu hjá þeim og þarna eru atriði sem þarf að skýra betur.“

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær hefur Heimsminjaskrifstofan nú einnig til skoðunar kvörtun vegna starfsemi köfunarfyrirtækja í Silfru. Einar segist ekki óttast að þau umsvif ógni stöðu Þingvalla á heimsminjaskrá. Hann bendir meðal annars á að aðeins sé leyft að kafa í tveimur gjám á Þingvöllum og með ströngum skilyrðum. Þetta og fleira verði útskýrt í svari til Heimsminjaskrifstofunnar auk þess sem ýmislegt í kvörtunarbréfinu verði leiðrétt.

„Tilfinning mín er að það verði hægt að skýra þessa starfsemi ágætlega fyrir Heimsminjaskrifstofunni,“ segir þjóðgarðsvörður.