Heims­minja­skrá UNESCO mælir með því að Kóral­rifið mikla í Ástralíu verði sett á lista yfir heims­minjar sem eru í hættu vegna lofts­lags­breytinga. UNESCO leggur til að rifið, sem er stærsta kóral­rif heims og teygir sig um 2300 kíló­metra leið undan norð­vestur­strönd Ástralíu, verði lækkað í tign á lista yfir heims­minjar á fundi stofnunarinnar í næsta mánuði. BBC greinir frá.

UNESCO hefur hvatt Ástrala til að grípa til skjótra að­gerða í lofts­lags­málum til að bjarga kóral­rifinu en ástralska ríkis­stjórnin segist vera ein­dregið á móti flokkuninni.

„Lofts­lags­breytingar eru stærsta ógn sem kóral­rif heimsins standa and­spænis… og það eru 83 náttúru­legar heims­minjar sem eru í hættu vegna lofts­lags­breytinga svo það er ekki sann­gjarnt að benda bara á Ástralíu,“ segir um­hverfis­ráð­herra Ástralíu, Sussan Ley.

Kóral­rifið mikla var sett á heims­minja­skrá UNESCO árið 1981 vegna „gífur­legs vísinda­legs og eðlis­lægs mikil­vægis þess“. Eftir að UNESCO vöruðu fyrst við hættunni sem rifinu stafar af vegna lofts­lags­breytinga árið 2017 eyddi ríkis­stjórn Ástralíu rúmum þremur milljörðum ástralskra dala í verndunar­að­gerðir.

Þær að­gerðir hafa þó ekki dugað sem skyldi og á síðustu árum hefur heilsu kóral­rifsins hnignað til muna og sí­fellt fleiri kórallar drepist. Vísinda­menn telja á­stæðu þess einna helst vera hækkandi hita- og sýru­stig sjávar vegna lofts­lags­breytinga af völdum bruna kol­efna­elds­neytis.

Þrátt fyrir þetta hafa Ástralar verið tregir við að setja sér skýrari mark­mið í lofts­lags­að­gerðum en landið er eitt fárra OECD ríkja sem hefur ekki sam­þykkt mark­mið um kol­efnis­hlut­leysi fyrir árið 2050. Ástralía er stór út­flutnings­aðili kola og jarð­gasa en landið hefur ekki upp­fært lofts­lags­mark­mið sín frá árinu 2015 sem gera ráð fyrir 26-28 prósenta sam­drætti í út­blæstri árið 2030 miðað við tölur ársins 2005.