Húsgagnasmiðirnir Hafsteinn Helgi og Guðrún Agla byggðu sér heimili við Hafravatn þar sem birtu og útsýnis nýtur sérlega vel út um stóra gluggana. Fréttablaðið/Anton Brink

Við rákumst á þessa lóð þegar við opnuðum fasteignavefinn í léttu gríni árið 2015. Við vorum ekkert á þeim stað að geta fjárfest neitt,“ segir Hafsteinn. „En við fundum þessa heilsárslóð rétt við bæjarmörkin á ótrúlegu verði og gersamlega féllum fyrir henni.“ Þau tryggðu sér lóðina og ætlunin var að bíða með framkvæmdir. „Ég er aftur á móti ekki mikið fyrir að bíða svo við flugum vestur á firði til Kjartans Árnasonar arkitekts, sem býr í sams konar húsi.“

Þau fengu teikningar Kjartans og gerðu smávægilegar breytingar, aðallega á gluggum sem voru stækkaðir. „Við eigum svo yndislega vini sem eru þvílíkt flinkir smiðir og hjálpuðu okkur við bygginguna og eru gæðin alveg eftir því.“

Hvar sem staðið er í húsinu er að finna glugga og útsýnið verður seint þreytt. Fréttablaðið/Anton Brink
Borðplöturnar og allur viður í húsinu er frá fyrirtæki hjónanna Happie Furniture sem hefur á fimm árum framleitt yfir eitt þúsund borð. Fréttablaðið/Anton Brink

Norðurljósin daglegt brauð


Hafsteinn segir stóra gluggana veita magnað útsýni. „Að vera þarna er undur allan ársins hring. Norðurljósin eru nánast daglegt brauð, stjörnurnar ótrúlegar, Esjan, Hafrafellið, Úlfarsfellið, stundum Snæfellsjökullinn og Bláfjöllin, í raun er panorama útsýni á þetta allt.“

Hljóðvistin er góð enda clipsó hljóðdúkur í lofti og teppi á gólfum uppi sem dempar hljóð enn betur. Fréttablaðið/Anton Brink

Lóðin er gróðri vaxin og segir hann mikið um fuglalíf, sérlega vor og sumar. „Himbrimapar kemur árlega, það flýgur niður á Hafravatn á daginn og svo á slaginu tíu á kvöldin heyrir maður í þeim fljúga til baka upp til Krókatjarna fyrir nóttina. Hrossagaukurinn syngur svo fugla hæst, uglur eru regluleg sjón ásamt spóanum, lóunni, stelknum og kjóinn flýgur stundum rólega yfir.“

Efri hæðin er teppalögð til að dempa betur hljóð í opnu rýminu. Fréttablaðið/Anton Brink
Stiginn á milli hæða er úr gegnheilli hvíttaðri furu eins og gólf neðri hæðar. Fréttablaðið/Anton Brink

Þessa dagana dvelja þau hjónin ásamt tveimur ungum dætrum sínum á eyjunni La Palma á Spáni þar sem ætlunin er að gera upp hús, hugsað sem vetrarhús. „Þetta er ein af minni Kanaríeyjunum þar sem um 90 prósent efnahagsins gengur út á ávaxtaræktun og lítið er um túrisma. Við komum hingað á eyjahoppi þegar yngri dóttirin var fjögurra vikna gömul.“

Hafsteinn og Agla höfðu áður gert upp hús í Danmörku og þegar gott kauptilboð kom í það sáu þau sér leik á borði þegar þau féllu fyrir eyjunni. „Við keyptum hér 6.000 fm lóð, með rústum, sem við erum að gera upp.“

Hugmyndin er að gera húsið upp og leigja það út yfir sumartímann en nýta það sjálf á veturna. Á meðan er húsið heima leigt út til ferðamanna en nú þegar þeim fækkar snarlega hafa þau ákveðið að bjóða það nokkra mánuði í senn til þeirra sem það hentar.

Einstaklega bjart og fallegt heimili. Fréttablaðið/Anton Brink

Prufutíminn búinn

Happie Furniture er í fullri starfsemi hér á landi og eru þau Hafsteinn og Agla að eigin sögn með tvo frábæra starfsmenn sem sjá um framleiðsluna á meðan þau dvelja ytra, smiðina Sjamek og Einar. „Eftirspurnin eftir borðunum okkar hefur ekkert minnkað enda um að ræða vandaða vöru sem endist fólki út ævina. Eik og hnota er stöðugasti gjaldmiðill í heiminum.“

„Segja má að prufutíminn sé búinn, við höfum framleitt yfir eitt þúsund borð á þessum fimm árum sem Happie Furniture hefur verið í starfsemi en við höfum þó ekki viljað mikla yfirbyggingu eða eiginlega verslun, því við viljum geta skellt í lás ef svo fer.“ Nú þegar þau hjónin eru mikið á faraldsfæti fundu þau þó fyrir þörfinni fyrir eins konar sýningarrými sem nú er að verða að veruleika á Skólavörðustígnum.

„Hönnuðurinn Inga Elín sem hannar undir merkinu Inga Elín Design kom að máli við okkur ásamt syni sínum Kristni, sem er einnig framkvæmdastjóri fyrirtækisins, um samstarf sem okkur leist vel á og verða húsgögn okkar til sýnis og sölu í verslun þeirra sem opnuð verður í yndislegu húsnæði á Skólavörðustígnum þann 28. mars næstkomandi.“

Pottaplöntur setja hlýlegan svip á baðherbergi hússins. Fréttablaðið/Anton Brink
Loftglugginn í svefnherberginu veitir einstaka sýn á norðurljósin. Fréttablaðið/Anton Brink
Útsýni úr svefnherberginu. Fréttablaðið/Anton Brink
Á gólfum neðri hæðarinnar er falleg hvíttuð gegnheil fura. Fréttablaðið/Anton Brink
Hálfopið er á milli hæða og segir Hafsteinn það draga íbúa enn betur saman. Fréttablaðið/Anton Brink