Samtökin Réttur barna á flótta segja í yfirlýsingu að þau undrist ummæli fyrrverandi dómsmálaráðherra, Sigríðar Á. Andersen, um albönsku fjölskylduna sem vísað var í landi í síðustu viku. Fjallað var ítarlega um málið í fjölmiðlum en konan, sem vísað var úr landi, var gengin nærri 36 vikur með sitt annað barn.
Fram kemur í yfirlýsingu samtakanna að Sigríður hafi sagt að hún hafi óskað þess að konan hefði farið sjálfviljug úr landi, en að hún hafi ekki gert það, og þess vegna hafi þurft að framkvæma brotvísun.
„Þetta er einfaldlega rangt,“ segir samtökin.
Þau segja albönsku konuna ekki hafa haft heimild til að yfirgefa sjálfviljug landið og að samkvæmt ákvörðun Útlendingastofnunar ætti hún að sæta brottvísun og tveggja ára endurkomubanni sem gildir innan alls Schengen-svæðisins.
„Slíkum ákvörðunum er framfylgt af lögreglunni. Einstaklingur með umsókn (sem jafnvel er metin bersýnilega tilhæfulaus) fær almennt ekki leyfi til að yfirgefa landið sjálfur en rök stjórnvalda hafa almennt verið sú að mikil hætta sé á að viðkomandi fari ekki beina leið heim,“ segir í yfirlýsingunni.
Samtökin segja að fyrrverandi dómsmálaráðherra ætti að vita betur, sérstaklega í ljósi þess að hún hafði umsjón með málaflokknum um tíma og ætti þannig að þekka til málsmeðferðar slíkra mála.
„Það ætti að teljast mjög alvarlegt ef að staðhæfingum og rangfærslum fyrrverandi dómsmálaráðherra er tekið sem sannindum þó raunin sé allt önnur,“ segir í yfirlýsingunni.
Þau segja það ljóst að við brottvísun albönsku fjölskyldunnar hafi settum verklagsreglum ekki verið fylgt og hafa samtökin ákveðið að standa straum af þeim kostnaði sem fylgir því að „kæra framkvæmdarvaldið fyrir framgöngu sína gagnvart þeim.“
Markmið samtakanna með því er tvíþætt, að fjölskyldan fái viðurkenningu á því að brotið hafi verið á mannréttindum þeirra og heilsu bæði konunnar og barnsins stefnt í hættu og svo vilja þau senda skýr og sterk skilaboð til framkvæmdavaldsins um að álíka vinnubrögð verði ekki liðin.
Þau hafa gengið til liðs við lögmannsstofuna Réttur. Tilkynningu samtakanna má sjá hér að neðan.