„Efling var bara í virkum og lifandi samningaviðræðum við Samtök atvinnulífsins alveg fram á síðustu stundu. Þess vegna var ekki hægt að skrifa undir,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.

Lífskjarasamningar SA og aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins og Landssambands íslenskra verslunarmanna voru undirritaðir á ellefta tímanum á miðvikudagskvöld. Undirritunarinnar hafði þá verið beðið frá því á mánudagskvöld þegar samkomulag náðist um meginlínur og verkföllum var aflýst.

Til stóð að skrifa undir samninga klukkan 15 á miðvikudag en eins og áður segir frestaðist það fram á kvöld. Þá var sagt að einungis væri verið að fínpússa texta samninganna og ganga frá lausum endum og engin ágreiningsefni væru til staðar.

Sólveig Anna segir hins vegar að fram á síðustu stundu hafi Efling verið að semja um hluti sem þau álíti mjög mikilvæga.

„Ég undrast mjög þennan asa sem fór af stað. Ég viðurkenni reynsluleysi mitt en þegar svona alvarlegur hlutur eins og að ganga frá kjarasamningi fyrir gríðarlega stóran hóp af fólki er annars vegar finnst mér að gefa eigi öllum þann tíma sem til þarf til að hægt sé að klára þetta á ásættanlegan máta.“

Sólveig Anna segir að á lokametrunum hafi Efling náð fram mikilvægum atriðum. „Ég er mjög stolt af því sem við náðum fram þarna undir það síðasta. Við náðum fram ákvæði sem snýr að aukinni vernd fyrir fólk sem tekur virkan þátt í störfum stéttarfélaga og því að fyrirtæki tryggi túlkun þegar um miðlun mjög mikilvægra upplýsinga er að ræða.“ Hins vegar hafi ekki náðst saman um kafla um verulega auknar heimildir trúnaðarmanna á vinnustöðum.

Kynningar á innihaldi samninganna fyrir félagsmönnum þeirra stéttarfélaga sem eiga aðild að þeim verða í næstu viku. Í kjölfarið verður svo boðað til allsherjaratkvæðagreiðslu um samningana.