Karl­maður sem Frétta­blaðið ræddi við og mætti til bólu­setningar með AstraZene­ca í morgun, furðar sig á því að sér hafi verið sagt að það yrði í góðu lagi að mæta án boðunar þegar bólu­sett yrði næst með AstraZene­ca.

Eins og Frétta­blaðið greindi frá í morgun myndaðist ör­tröð við Laugar­dals­höll þegar hundruð mættu án boðs í bólu­setningu með bólu­efni AstraZene­ca. Gaf heilsu­gæslan út til­kynningu um í morgun um að sá hópur yrði að bíða þar til eftir klukkan 14:00 í dag.

Maðurinn spurði sérstaklega að því hvort hægt yrði að mæta fyrr til bólusetningar.
Fréttablaðið/Aðsend

Maðurinn, sem ekki vill láta nafns síns getið, mætti í Laugar­dals­höll eins og hundruð aðrir. Hann er á leið til Banda­ríkjanna í sumar til að vera með fjöl­skyldu sinni og spurði sér­stak­lega að því hvort sér væri ó­hætt að fá AstraZene­ca fyrir fimm vikum með til­liti til þessa. Fjöl­skyldan hefur ekki hist í tvö ár vegna að­stæðna.

Alla­jafna eiga tólf vikur að líða á milli skammta þegar bólu­sett er með AstraZene­ca og hafði maðurinn því á­hyggjur af því að það myndi hafa á­hrif á ferða­lag sitt. Hann segist sár yfir því að sér hafi verið lofað að bólu­setningin gæti gengið svona, án þess að tryggt hafi verið að heilsu­gæslan gæti staðið við það.

Maðurinn segir að sér finnist fá­rán­legt að látið sé að því liggja nú að fólk hafi ein­fald­lega mætt ó­boðað í morgun. Til stað­festingar hefur hann látið sam­skipti sín við heilsu­gæsluna fylgja. Þar segir starfs­maður honum að fylgjast með því hve­nær bólu­sett verði með Astra að nýju og mæta svo ein­fald­lega.

Þá segir maðurinn að í morgun hafi örugg­lega mætt fullt af fólki sem valið hafi Astra í þeirri trú að það gæti fengið seinni skammtinn fyrr en bið­tíminn segi til um, frekar en að bíða upp á von og óvon eftir öðru bólu­efni.

Fréttablaðið/Sigtryggur Ari