„Ég myndi halda að þetta kastaði rýrð á virðingu Alþingis, nema að þetta sé svo alvanalegt að það kasti ekki rýrð á stjórnkerfið,“ segir Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Hún lýsir furðu með að siðanefnd Alþingis minnist ekki á fullyrðingar Gunnars Braga Sveinssonar, þingmanns Miðflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra, á Klaustursupptökunum að hann hafi átt inni starf í utanríkisþjónustunni í skiptum fyrir að hafa skipað Geir H. Haarde sendherra í Washington.

Kannast ekki við samkomulag

„Þegar ég á fund með Bjarna í fjármálaráðuneytinu og ég segi við Bjarna „Það er algjörlega sjálfsagt. Auðvitað geri ég Geir að sendiherra.“ Og þá segi ég við Bjarna. „Og mér finnst sanngjarnt að þið horfið til svipaðra hluta þegar ég þarf á því að halda.“,“ heyrðist í Gunnari Braga á upptöku.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, virtist staðfesta sögu Gunnars Braga.

„Bjarni fór út um víðan völl en niðurstaðan var sú að hann hefði fallist á það að ef þetta gengi eftir, þá ætti Gunnar inni hjá Sjálfstæðismönnum,“ heyrðist í Sigmundi Davíð.

Gunnar Bragi dró ummæli sín til baka eftir að greint var frá þeim í fréttum DV og Stundarinnar. Sagði hann í Kastljósi að hann hefði verið að ljúga.

Hvorki Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra né Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra könnuðust við að slíkt samkomulag lægi fyrir.

Þeir Guðlaugur og Bjarni áttu þó óform­leg­an fund með Sig­mundi Davíð þar sem hann greindi þeim frá áhuga Gunn­ars Braga á sendi­herra­stöðu.

„Sem fyrr­ver­andi ut­an­rík­is­ráðherra kann Gunn­ar Bragi að hafa haft vænt­ing­ar um slíka skip­un en það er í það minnsta ekki á grund­velli neinna lof­orða, eins og formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, og raun­ar Gunn­ar Bragi sjálf­ur, hef­ur staðfest,“ sagði Guðlaugur Þór um málið í desember. „Frá­sagn­ir í al­ræmdu sam­sæti á Klaustri um ein­hvers kon­ar sam­komu­lag í þessa átt voru mér enda al­gjör­lega fram­andi, eins og ég hef þegar tjáð mig um.“

Segja málið pólitískt útspil

Helga Vala, sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, kallaði þá alla fyrir nefndina til að fyrir yfir málið. „Ef að einhver lætur opinberan embættismann aðhafast eitthvað gegn því að fá eitthvað í staðinn þá er hegningarlagabrot,“ segir Helga Vala.

„Við náðum ekki að klára málið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd því Sigmundur Davíð og Gunnar Bragi neituðu ítrekað að mæta.“

Sendu þeir þess í stað yfirlýsingu um að umfjöllun nefndarinnar um málið væri pólitískt útspil sem væri gert til að koma á þá höggi.

Athygli vekur að álit nefndarinnar snýr aðeins að ummælunum í garð kvenna en ekki að meintu loforðunum um starf í utanríkisþjónustunni.

„Bjarni og Guðlaugur mættu fyrir nefndina og sögðu að þeir hefðu fundað um væntanlegan bitling fyrir Gunnar Braga, sem er alveg á skjön við það sem Sigmundur Davíð og Gunnar Bragi sögðu um að það hefði ekki verið fundað um þetta,“ segir Helga Vala. „Þetta var síðan allt komið inn til siðanefndarinnar þannig að ég átti von á því að eitthvað myndi gerast þar.“

Það er einnig á reiki hvort siðareglur þingsins nái yfir störf þingmanna sem ráðherra. „Að eigin sögn mun hann hafa aðhafst eitthvað gegn því að fá eitthvað í staðinn. Ég veit það ekki, ég furða mig á því hvers vegna siðanefndin fjallar ekki um þetta atriði.“