Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá afhenda stjórnvöldum undirskriftalista fólks sem krefst lögfestingar. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun taka við listanum klukkan 13 í dag fyrir utan Alþingishúsið. Helga Baldvins Bjargardóttir, formaður samtakanna, mun fara með tölu og Lay Low flytja lag sem hún samdi við aðfaraorð stjórnarskrárinnar.

Þegar Fréttablaðið fór í prent í gærkvöld höfðu rúmlega 42 þúsund undirskriftir safnast og fjölgað hratt á undanförnum dögum. Katrín Oddsdóttir, formaður Stjórnarskrárfélagsins, áætlar að um þúsund hafi safnast í gær.

„Þetta sýnir að það er mjög mikill áhugi á að niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar verði virtar,“ segir Katrín. „Þetta hefur spurst vel út og tók til dæmis mikinn kipp eftir að veggmyndin var fjarlægð.“