Haraldur Ólafs­son veður­fræðingur mun fram­kvæma rann­sókn á eld­gosinu í Geldinga­dölum í lok maí í sam­starfi við breska vísinda­menn á vegum the National Centre for At­mospheric Science.

„Við ætlum að setja upp mæla í kringum gosið til þess að mæla ýmis gös og loft­tegundir. Við erum sér­stak­lega að hugsa um kol­tví­sýring, hvað kemur upp af honum og hvernig hann dreifist,“ segir Haraldur.

„Þetta er spennandi, þá fær maður svona eins konar bóka­safn. Bæði um það hvernig gösin dreifast, upp á hættu í kringum gosið, og svo fær maður líka mat á því hvað kemur upp í and­rúms­loftið al­mennt í svona eld­gosi. Þannig að þetta er svona tvenns konar, annars vegar þessi stað­bundnu á­hrif og svo hins vegar þetta hnatt­ræna,“ segir Haraldur.

Rann­sóknin verður að hluta til unnin með sama teymi og vann með Haraldi að um­fangs­mikilli rann­sókn á haf­straumum sem fram­kvæmd var hér á landi árið 2018. Þá var flogið yfir haf­svæði fyrir vestan, suð­vestan og norðan Ís­land á sér­stakri breskri rann­sóknar­flug­vél til að safna gögnum.

„Það hefur verið safnað ó­skap­lega mikið af gögnum í þessum flugum. Þau eru svo notuð til þess að stilla reikni­líkön sem eru notuð til að reikna haf­strauma, veður og ís­myndun. Það er enn þá verið að nota þessi gögn og það verður gert í mörg, mörg ár,“ segir Haraldur og bætir við að doktors­stúdentar víða um heim leiti í þessi gögn fyrir rann­sóknar­verk­efni sín.

Hefði verið glæsilegt að fórna sér fyrir vísindin

Haraldur lýsir fluginu í haf­strauma­rann­sókninni sem hálf­gerðri ævin­týra­mennsku.

„Það var flogið mjög lágt, í þrjá­tíu til fimm­tíu metra hæð yfir sjávar­máli. Það lá við að öldurnar skyllu á vængjunum, þetta var dá­lítið magnað. Eftir á að hyggja var þetta náttúr­lega hálf­gert brjál­æði, maður hefði getað lent á borgar­ís og ég veit ekki hverju. Það hefði verið glæsi­legt að fórna sér svona fyrir vísindin,“ segir Haraldur kíminn.

Hann segir mark­miðið með því að fljúga niður við yfir­borð sjávar vera það að mæla varma­flæðið upp úr sjónum. Hversu mikil varma­orka losni og hversu mikill raki komi upp við ó­líkar veður­að­stæður. Hægt sé að fram­kvæma slíkar mælingar með skipum en flug­vélar skili miklu betri gögnum á miklu skemmri tíma.

„Það er hægt að setja þetta á skip en skipin trufla loft­strauminn svo rosa­lega mikið og það nást aldrei eins góðar mælingar frá skipi og frá flug­vél. Flug­vél er bara með þetta í vængjunum og í nefinu og flýgur yfir allt svæðið á klukku­tíma, þannig að maður getur kort­lagt allt svæðið á mjög stuttum tíma. En ef maður er með skip þá kort­leggur maður eitt prósent af svæðinu á þessum klukku­tíma og fær þar að auki mælingar sem maður trúir ekki alltaf út af að­stæðum á skipinu,“ segir Haraldur.

Hann segir svona mælingar skila mjög háum tölum vegna þeirra miklu orku­skipta sem eigi sér stað á yfir­borði sjávar.

„Þegar kemur ís­kalt loft af haf­ísnum yfir sjóinn, þá kemur alveg svaka­leg kólnun á sjóinn og svaka­leg hlýnun á loftið og þarna verða mikil orku­skipti. Þá kólnar sjórinn og dettur niður og þá verður mikill hræringur ofan í hafinu. Ef haf­ísinn fer þá hætta þessir at­burðir eða þeim fækkar,“ segir Haraldur og bætir við að slíkar mælingar geti meðal annars nýst til rann­sókna á yfir­vofandi breytingum Golf­straumsins sem mikið hefur verið fjallað um í vísinda­sam­fé­laginu undan­farið.

Myndir teknar úr rannsóknarflugvélinni.
Mynd/Aðsend
Mynd/Aðsend
Mynd/Aðsend