Veiga Grétars­dóttir, kaja­kræðari, er nú á Vík, en hún lagði af stað þann 14. maí á kajak frá Ísa­firði í ferð kringum landið, rang­sælis. Enginn hefur siglt rang­sælis á kajak í kringum landið áður.

Hún er nú í hvíld vegna veikinda áður en hún tekst á við erfiðasta hluta leiðarinnar, sem er Suður­ströndin.

„Það er erfiðasti kafli leiðarinnar,“ segir Veiga.

Veiga hefur komið víða við á leið sinni um landið. Spurð hvað hafi staðið upp úr leiðinni segir Veiga það vera margt.

„Lands­lagið er auð­vitað æðis­leg. Að fá að róa í gegnum Dyr­hóla­ey, Látra­bjarg og Svörtu­loft. Ég er búin að kynnast of­boðs­lega mikið af yndis­legu fólki. Það er alltaf tekið vel á móti manni og allir til­búnir að hjálpa manni og gera allt fyrir mann,“ segir Veiga.

Veiga lagði af stað þann 14. maí.
Mynd/Veiga Grétarsdóttir

Ferðin langþráður draumur

Ferðin er Veigu lang­þráður draumur en um leið og hún lætur draum sinn rætast safnar hún fyrir Píeta sam­tökunum. Veiga segir að hún hafi ekki ná­kvæma tölu um hversu mikið hefur safnast en segir að söfnunin gangi vel. Hún segir að mikið hafi safnast þegar hún var á Stokks­eyri í síðustu viku og Kayak­ferðir á Stokks­eyri skipu­lögðu ferð sem gaf fólki tæki­færi á að róa með henni síðustu átta kíló­metrana að Stokks­eyri.

„Fólk fékk að róa með mér og allur á­góði rann til Píeta,“ segir Veiga.

Hún sagðist ekki vita þess að á­líka við­burðir væru skipu­lagðir annars staðar á landinu en segir að henni þætti það gaman.

Píeta sam­tökin eru for­varnar­sam­tök gegn sjálfs­vígum og sjálfs­skaða. Til þeirra geta bæði leitað ein­staklingar og að­stand­endur sem vilja fá hjálp og við­tal hjá fag­fólki

Veiga segir að það sé ekki að á­stæðu­lausu sem hún hafi valið þessi sam­tök. Hún þekki það vel sjálf að vera á slæmum stað og segist tví­vegis hafa reynt að taka eigið líf á meðan hún gekk í gegnum kyn­leið­réttingar­ferli, en Veiga er trans­kona.

„Þetta er mál­staður sem ég tengi vel við því ég reyndi tvisvar, þegar ég var að byrja ferli mitt, að taka mitt eigið líf,“ segir Veiga.

Spurð hvort hún þekki starf sam­takanna sjálf segir hún að þau hafi ekki verið stofnuð þegar hún hafi gengið í gegnum sitt, en að hún viti full­vel hversu mikil­vægt er að hafa slíka að­stoð fyrir fólk.

„Það var ekki búið að stofna sam­tökin hér á Ís­landi þegar ég var í þessu. En ég veit hvernig er að vera á þessum stað. Þetta er skelfi­legur staður. Þetta er orðið svo al­gengt á Ís­landi, sér­stak­lega meðal ungra karl­manna,“ segir Veiga.

Býst við því að vera heima á Ísafirði í júlí

Hún býst við því að vera aftur á Ísa­firði við lok júlí, eða miðjan ágúst, en segir að það verði að fá að koma í ljós. Hún segir að veðrið sé gott núna á suður­ströndinni en að heilsan sé ekki nægi­lega góð til að halda á­fram. Það þurfi bland af báðu svo að ferðin gangi upp.

„Maður veit aldrei hvernig þetta verður og tekur bara einn dag í einu,“ segir Veiga.

Veiga er alveg ein á ferða­lagi sínu og segir að það sé alls ekkert erfitt.

„Mér finnst það ekkert erfitt. Ég er alveg vön ein­mana­leikanum. Þegar ég byrjaði ferlið var ég í einskis­manns­landi. Dottin út úr karla­ver­öldinni og ekki enn komin inn í konu­ver­öldin, þannig ég var rosa­lega ein­mana þá. Þetta er samt ekkert sam­bæri­legt, því að líða illa er rosa­lega slæmt, en að vera sátt í eigin skinni og ein er allt annað,“ segir Veiga

Hægt er að fylgjast með ferð Veigu um landið á Insta­gram reikningi hennar, Against the Cur­rent, sem má sjá hér að neðan.

Hægt er að leggja söfnun hennar lið með því að leggja inn á söfnunar­reikning: 0301-13-305038 kt. 4104160690 eða hringja í söfnunar­númer 901 7111 – 1.000, kr. / 901 7113 – 3.000, kr. / 901 7115 – 5.000, kr.

Þá er einnig hægt að fylgjast með henni á heima­síðu hennar hérog ferðinni á kajaknum í raun­tíma hér.