„Það sem þarf að taka á­kvörðun um er gjald­takan og hvað á að rukka ferða­menn fyrir skimunina. Hvort gjaldið verði bara fyrir sýnið eða hvort meira verði inni í því. Þetta á eftir að á­kveða,“ segir Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra í sam­tali við Frétta­blaðið. Ríkis­stjórnin sam­þykkti í morgun að fara eftir til­lögum sótt­varnar­læknis við opnun landa­mæra þann 15. júní.

Að­eins eru tvær vikur í að ferða­mönnum sem koma hingað til lands bjóðist að fara í sýna­töku og skimun á Kefla­víkur­flug­velli í stað þess að fara í tveggja vikna sótt­kví. Kostnaður við verk­efnið hefur mikið verið ræddur en bráða­birgða­mat gerir ráð fyrir því að fyrstu tvær vikurnar geti kostað allt að 160 milljónir króna ef tekin verða 500 sýni á dag, sem miðast við að þrjár flug­vélar komi til landsins dag­lega. Kostnaður við hvert sýni yrði þá um 22.500 krónur.


Ljóst er að því fleiri sýni sem tekin eru og greind í einu því minni kostnaður er við hvert þeirra. Til dæmis myndi kostnaður við eitt sýni rjúka upp í tæpar 50 þúsund krónur, sam­kvæmt bráða­birgða­matinu, ef að­eins verða tekin um hundrað sýni á dag.


Í greinar­gerð um efna­hags­leg sjónar­mið við losun ferða­tak­markana þann 15. júní, sem unnin var fyrir for­sætis­ráðu­neytið, kemur fram að hver ferða­maður skili að meðal­tali um 20 til 25 þúsund krónum, með beinum skattgreiðslum, til ríkis­sjóðs. Þar er bent á að ef ríkið stæði straum af kostnaðinum við sýna­töku í Kefla­vík myndi að­gerðin að öllum líkindum ekki borga sig, því hvert sýni myndi kosta jafn mikið eða meira og hver ferða­maður skilar ríkis­sjóði.


Að­spurð hvort það verði for­senda að­gerðarinnar að hún muni borga sig fyrir ríkis­sjóð segist Katrín ekki vera komin svo langt. Það eigi eftir að taka á­kvörðun um gjald­tökuna og mögu­lega þátt­töku ríkisins í henni en ljóst er að ferða­menn verða alla­vega rukkaðir fyrir hluta kostnaðarins. Um ná­kvæma gjald­töku verður til­kynnt á næstu dögum.

Gæti tekið nokkur ár

For­sætis­ráð­herra heldur nú utan um verk­efnið og sam­hæfingu allra sem koma að því, til dæmis heil­brigðis­yfir­völdum, ríkis­lög­reglu­stjóra og Land­spítala. Að­spurð hver næstu skref séu í undir­búningnum og hve­nær megi vænta þess að ná­kvæm á­ætlun fyrir fram­kvæmdina liggi fyrir segir Katrín létt í bragði: „Þetta verður bara á þessum ís­lenska tíma. En þetta næst.“


„Auð­vitað er mikil vinna eftir enn þá en þetta gengur vel,“ segir hún. „Þetta hefur skilað sér ræki­lega út í heim og vakið at­hygli. Það vita allir að þetta standi til og hingað hafa þegar borist margar fyrir­spurnir um málið og ýmsir sýnt þessu at­hygli.“


Í áður­nefndri greinar­gerð er gert ráð fyrir því að það muni taka nokkur ár fyrir eftir­spurn eftir ferða­þjónustu að ná sama mæli aftur og að flug­sam­göngur nái heldur ekki fyrri styrk fyrr en eftir nokkur ár. Al­þjóða­stofnanir og greiningar­aðilar geri þá ráð fyrir að ferða­þjónustan verði meðal síðustu at­vinnu­greina til að jafna sig á efna­hags­á­standinu.


„Mark­miðið er ein­fald­lega það að ferða­þjónustan geti blómstrað á Ís­landi,“ segir Katrín. „Það er nú yfir­leitt þannig að hlutirnir þróast út frá breyttum að­stæðum og við eigum alveg eftir að sjá hvernig þessi veira mun hafa á­hrif á ferða­þjónustu í heiminum til langs tíma.“