„Manni sýnist að það geti brugðið til beggja vona um hvort kosið verður aftur í Norðvesturkjördæmi. Það virðast að minnsta kosti aukast líkurnar á því ef eitthvað er,“ sagði Stefanía Óskarsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, í viðtali í Fréttavaktinni á Hringbraut í gærkvöldi.

„Manni svona heyrist sem málin séu að þróast í þá átt og það kallar á ákveðinn undirbúning. Hann yrði kannski ekki mjög langur, ef ákvörðun um uppkosningu verður tekin.“

Stefanía bendir á að leiðtogar stjórnmálaflokkanna haldi spilunum þétt að sér, bæði um þetta mál og stjórnarsáttmálann.

Bæði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hafa ítrekað að ekki sé hægt að mynda nýja ríkisstjórn fyrr en deilumál um úrslit kosninganna hafi verið til lykta leidd.

Sem stendur er málið í höndum undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa. Nefndin kom fyrst saman í byrjun október og hefur fundað yfir 20 sinnum vegna stöðunnar sem upp kom í talningarmálum í Norðvesturkjördæmi. Búist er við að nefndin ljúki störfum á næstu dögum.