Undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa hefur lokið störfum og skilað af sér greinargerð. Þar kemur fram að nefndin hafi gengið úr skugga um að tillögur hennar raski ekki úrslitum Alþingiskosninganna 25. september. Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata stendur ekki við greinargerðina.
Hér má nálgast greinargerðina í heild sinni.
Á blaðsíðu 11 í greinargerðinni segir að í Norðausturkjördæmi er það tillaga undirbúningsnefndarinnar að af þeim þremur ágreiningsatkvæðum (eitt kjörfundaratkvæði og tvö utankjörfundaratkvæði), sem yfirkjörstjórn Norðausturkjördæmis úrskurðaði ógild, beri að meta eitt utankjörfundaratkvæði gilt. Telst það greitt J-lista Sósíalistaflokks Íslands.
Tillaga nefndarinnar um kjörfundarseðill sem yfirkjörstjórn Suðvesturkjördæmis úrskurðaði ógildan skuli metinn gildur og atkvæðið greitt S-lista Samfylkingarinnar - jafnaðarmannaflokks Íslands.
Jafnframt er það tillaga nefndarinnar að af þeim fimm ágreiningsseðlum (þrjú kjörfundaratkvæði og tvö utankjörfundaratkvæði) sem yfirkjörstjórn Reykjavíkurkjördæmis suður úrskurðaði ógilda skuli meta eitt kjörfundaratkvæði greitt B-lista Framsóknarflokks, eitt utankjörfundaratkvæði greitt J-lista Sósíalistaflokks Íslands og eitt utankjörfundaratkvæði greitt D-lista Sjálfstæðisflokks.
Enn fremur er það niðurstaða nefndarinnar að leggja til að úrskurður yfirkjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmis norður, um að meta skuli sex kjörfundaratkvæði ógild og eitt utankjörfundaratkvæði gilt og greitt D-lista Sjálfstæðisflokks, verði staðfestur.
Alvarlegustu ágallarnir í Norðvesturkjördæmi
„Alvarlegastan verður að telja þann annmarka sem lýtur að vörslu kjörgagna á meðan yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis gerði hlé á fundi sínum sunnudaginn 26. september kl. 7.35 og þar til hún kom aftur saman um kl. 13.00. Fyrir liggur að þá voru kjörgögn geymd í opnum kössum í rými sem ekki var læst að öllu leyti eða innsiglað og öryggismyndavélar náðu ekki til. Jafnframt liggur fyrir að fjórir starfsmenn hótelsins höfðu aðgang að því svæði þar sem kjörgögnin voru geymd. Þá er ekki ljóst hvenær bakdyrum í talningarsal var læst. Loks liggur fyrir að þegar oddviti yfirkjörstjórnar mætti á talningarsvæðið kl. 11.59 var hann einn þar til næsti kjörstjórnarmaður kom kl. 12.35. Samkvæmt upplýsingum lögreglu var starfsfólk hótelsins á sama tíma á ferðinni inn og út úr fremri sal. Sé þetta allt virt verður að telja að alvarlegur annmarki hafi verið á vörslu kjörgagnanna. Reynir þá á hvort þeir hafi haft áhrif á að við seinni talningu atkvæða urðu umtalsverðar breytingar á atkvæðatölum framboða, sem áhrif höfðu á úthlutun jöfnunarsæta í kjördæminu og á landsvísu“, segir á blaðsíðu 65 í greinargerðinni.