Undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar er enn í vettvangsferð í Borgarnesi en þau mættu á lögreglustöðina þar um níu leytið í morgun.
Nefndin fór öll í hraðpróf fyrir ferðina samkvæmt heimildum Fréttablaðsins en lokað er á lögreglustöðinni í Borgarnesi vegna Covid-19.
Blaðamenn og ljósmyndarar fengu þó að fara inn í morgun til að smella myndum og heyra stuttlega í Birgi Ármannssyni, formanni nefndarinnar.
Vettvangsferð nefndarinnar í Borgarnes í dag er sú þriðja sem nefndin fer í. Birgir sagðist í morgun vona að þetta væri síðasta ferðin.
Tilgangur ferðarinnar væri að fara yfir flokkun gagna í kjölfar spurninga sem hafa komið upp í störfum nefndarinnar.
„Reyna átta okkur betur á atriðum sem hafa verið óljós í þessum fyrri ferðum okkar,“ sagði Birgir í morgun.
Ekki er ljóst hvenær vinnu nefndarinnar lýkur í Borgarnesi í dag.