Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri segir Almannavarnir og aðra viðbragðsaðila hafa dregið mikinn lærdóm af rafmagnsleysinu í óveðrinu veturinn 2019 og 2020, og styrkt nauðsynlega innviði.

Hún hefur ásamt yfirmönnum Almannavarna fundað með sérfræðingum hjá Veðurstofu Íslands og fulltrúum sveitarfélaga og fulltrúum úr raforku og fjarskiptageiranum vegna skjálftahrinunnar á Reykjanesi.

Landsmenn eru sumir óstyrkir vegna mögulegrar sviðsmyndar um skjálfta upp á 6,5. Aðspurð segist Sigríður ekki stressuð, hún er yfirveguð og ítrekar að yfirvöld séu vel í stakk búin til að takast á við allar sviðsmyndir.

Dagurinn í dag hefur verið nokkuð þægilegur hjá henni að eigin sögn, bara stöðugt fundað um viðbragðsáætlanir vegna jarðskjálfta á meðan jörðin skelfur og nötrar undir fótum hennar enda hafa fimm jarðskjálftar yfir 4 að stærð riðið yfir í dag, sá stærsti að stærð 4,7 sem varð rétt eftir klukkan 19. Fréttablaðið hafði rétt svo lokið símtalinu við ríkislögreglustjórann þegar sá fimmti kom.

„Það sem við höfum lært er að það var veita aukið fé í að byggja betur upp fjarskiptin, neyðarfjarskiptin. Mikið verk hefur verið unnið af hálfu neyðarlínu til að styrkja þau. Einnig höfum við unnið að innviðauppbyggingu frá rafmagnsleysinu í óveðrinu hér áður. Þar hafa almannavarnir verið styrktar og hálft stöðugildi farið á Norðurland eystra til að vinna með áætlanir og uppbyggingu þar,“ segir ríkislögreglustjóri í samtali við Fréttablaðið.

Sigríður Björk segir starf Almannavarna bæði snúast um að vera með eins margar viðbragðsáætlanir og mögulegt er og einnig vera undirbúin að slökkva elda.

Um 20 rafmagnsstaurar féllu í óveðrinu í Eyjafirði.
Fréttablaðið/Auðunn Níelsson

Heill her af sérfræðingum

„Við erum með virkar og góðar viðbragðsáætlanir vegna jarðskjálfta og mögulegra eldgosa. Skjálftahrinan gæti farið minnkandi en svo er líka möguleiki á skjálfta upp á 6,5 en þrátt fyrir það búumst við ekki við meiriháttar tjóni og hús eru ekki að fara að hrynja. Það gæti hins vegar gert að margt fari úr hillum og er því mikilvægt að byrgja brunninn.“

Segir hún vinnu almannavarna ganga út á að allir séu með sömu upplýsingar og geti komið saman að því að vera plön um undirbúning. Sveitarfélögin séu einnig með gríðarlega mikla þjónustu og hafa verið að styrkja sína aðkomu að almannavörnum og verið með sérstakar viðbragðseiningar.

„Við erum með heilan her af sérfræðingum, yfirvegaða viðbragðsaðila og öflugar björgunarsveitir. Það er magnað að skyggnast inn í heim sérfræðinganna en það eru einmitt þeir sem meta þörfina fyrir viðbragð að hverju sinni.“