„Við erum að undir­búa skaða­bóta­mál á hendur Út­lendinga­stofnun út af þessu máli,“ segir Magnús D. Norð­dahl, lög­maður eins mannanna sem sviptir voru þjónustu á vegum Út­lendinga­stofnunar eftir að þeir neituðu að fara í CO­VID-19 próf. Kæru­nefnd út­lendinga­mála komst að því í gær að Út­lendinga­stofnun hafi ekki haft heimild til að fella niður þjónustu því ekki sé skýrt í lögum hve­nær og við hvaða skil­yrði þjónusta ætti að falla niður.

„Um­bjóð­endur okkur voru sviptir þjónustu í mis­langan tíma og fengu þá hvorki hús­næði né fæði. Það er því um að ræða beint fjár­hags­legt tjón en við það bætist sá miski sem þeir allir urðu fyrir. Út­lendinga­stofnun við­hafði þetta fram­ferði allt frá mars mánuði og einn um­bjóðanda minn hafðist út við í Reykja­vík heila nótt þegar frostið fór niður fyrir fimm gráður. Við stefnum að því að þing­festa skaða­bóta­mál fyrir réttar­hlé nú í lok júní,“ segir Magnús.

Í á­kvörðun kæru­nefndar segir að á­kvörðunin um að fella niður þjónustu hafi verið tekin að frum­kvæði Út­lendinga­stofnunar en að í ís­lenskum rétti gildi sú megin­regla að stjórn­völd geta að­eins tekið í­þyngjandi á­kvörðun um skerðingu réttinda borgaranna hafi þau til þess skýra og ó­tví­ræða laga­heimild.

„Með vísan til framan­greindra sjónar­miða kæranda og orða­lags 33. og 35. gr. laga um út­lendinga og 23. gr. reglu­gerðar um út­lendinga verður ekki séð að Út­lendinga­stofnun hafi heimild í lögum sem skjóti stoðum undir hina kærðu á­kvörðun. Er því fallist á aðal­kröfu kæranda svo sem greinir í úr­skurðar­orði. Með vísan til þess sem að framan er rakið er hin kærða á­kvörðun því felld úr gildi,“ segir í úr­skurði kæru­nefndarinnar.

Einhver myndi axla ábyrgð

Magnús segir í sam­tali við Frétta­blaðið að kjarna­at­riðið í þessu máli sé að þessi á­kvörðun Út­lendinga­stofnunar hafi verið úr­skurðuð ó­lög­mæt.

„Það er með ó­líkindum að þessi stofnun hafi í raun stundað það mark­visst að setja fólk bjargar­laust á götuna án hús­næðis og fæðis. Í sið­menntuðum löndum myndi ein­hver axla á­byrgð á þessu núna þegar fyrir liggur að þetta var ó­lög­mætt eins og við bentum Út­lendinga­stofnun í­trekað á,“ segir Magnús.

Hann segir að hann hafi fengið fregnir af því að í gær hafi Út­lendinga­stofnun sent þeim tæp­lega tuttugu sem hafi verið sviptir þjónustu SMS og boðið þeim að koma aftur í þjónustu.

„Um­rætt mál er for­dæmis­gefandi og allir þeir aðilar sem Út­lendinga­stofnun sendi á götuna á síðustu misserum eiga nú rétt á því að fá hús­næði og fæði að nýju,“ segir Magnús að lokum.