Stjórnendur Landspítalans undirbúa sig nú undir það að innlögnum á spítalann vegna COVID-19 fari fjölgandi á næstu dögum.

Mikill fjöldi nýrra smita hefur greinst síðustu vikuna og kemur í ljós á næstu dögum hvort álag á heilbrigðiskerfið verði í líkingu við það sem var í fyrstu bylgju faraldursins.

Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV en þar var haft eftir Bryndísi Sigurðardóttur, smitsjúkdómalækni á Landspítala, að í vor hafi þeir einstaklingar sem hafi veikst illa byrjað að veikjast alvarlega á 9. til 13. degi sýkingarinnar.

Miðað við það og í ljósi þess hve margir hafi smitast að undanförnu megi búast við því að sjá aukinn fjölda lagðan inn á spítala á næstu dögum.

Yngri aldur smitbera mun líklega hafa áhrif

Bryndís tók þó fram að meginmunur á þessari bylgju og þeirri fyrstu sé að nú séu það mestmegnis töluvert yngri og hraustari einstaklingar sem séu að sýkjast af COVID-19. Því sé líklegra að hlutfallega færri verði nú lagðir inn á sjúkrahús .

105 voru innlagðir á Landspítalans í fyrstu bylgju faraldursins og voru þar 42 sjúklingar í einu þegar mest lét. Frá því í sumar hafa samtals 12 einstaklingar þurft innlögn á Landspítalanum vegna COVID-19.

Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans, sagði í kvöldfréttum RÚV að fjölþættur undirbúningur færi nú fram á spítalanum vegna væntanlegrar fjölgunar sjúklinga.

Þó sé það áskorun að erfitt hafi reynst að útskrifa sjúklinga sem hafi lokið meðferð á spítalanum og að fjöldi starfsmanna sé ýmist í einangrun eða sóttkví.