Víðs vegar um landið undirbýr fólk sig undir óveðrið sem gengur yfir landið í dag og á morgun. Oddviti Árneshrepps segir að fólk eigi að halda sér heima, en bæjarstjórinn á Höfn í Hornafirði býst ekki við miklum hvelli.
Í hádeginu var samhæfingastöð Almannavarna virkjuð vegna óveðursins sem gengur yfir landið í dag, en í gærkvöld var óvissustigi lýst yfir. Gul og appelsínugul viðvörun eru við gildi á flest öllu landinu og er fólk varað við því að ferðast á milli landshluta.
Icelandair og Play hafa bæði neyðst til að breyta ýmsum flugtímum og hefur öllu innanlandsflugi í dag verið aflýst.
Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps segir að það hafi nánast verið ófært allan janúar. Hún segir að versta veðrið komi seinna í dag og hvetur alla íbúa á svæðinu að halda sér heima.
„Við erum orðin ýmsu vön. það er búið að vera hundleiðinlegt veður síðan um áramót. Það nær því bara ekki að lagast inn á milli,“ segir Eva. Um þessar mundir eru þrettán metrar á sekúndu og segir Eva að það sé aðeins byrjað að hvessa.
„Fólk kemst ekki leiða sinna. Ég er búin að fara einu sinni á skrifstofuna í janúar. Þannig þetta er búið að vera andstyggð,“ segir Eva.
Hún segir að allir íbúar á svæðinu séu hvattir til að halda sig inni á meðan versta veðrið gengur yfir.
„Kannski verður veðrið ekki svona slæmt. Fólk þarf að fara í húsin og gefa fé, þannig það verða alltaf einhverjir sem þurfa að fara út,“ segir Eva.
Viðvörun: Vakin er athygli á gulum- og appelsínugulum viðvörunum Veðurstofu Íslands fyrir mánudag og þriðjudag, 30. og 31. janúar. Gera má ráð fyrir að til lokana geti komið og eru vegfarendur beðnir að kynna sér veðurspár áður en lagt er af stað. #færðin https://t.co/JiJjQXpTHf
— Vegagerðin | Iceland Roads (@Vegagerdin) January 30, 2023
Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri Hornafjarðar býst ekki við miklu óveðri í dag. Hann segir að flestir á svæðinu séu orðnir þaulvanir óveðri og eru því viðbúnir öllu.
„Við eigum ekki von á því að veðrið verði svo slæmt hjá okkur. Alla vega fer það fram hjá þéttbýlinu, en ég veit til þess að Björgunarfélag Hornafjarðar er að fara út á Jökulsárlón klukkan þrjú að loka veginum,“ segir Sigurjón.
„Við búumst ekki við að þetta verði mjög mikill hvellur. Við sleppum því að einhverju leyti. En sveitarfélagið er mjög stórt, þannig við þurfum að sjá hvernig þetta fer,“ segir Sigurjón.