Krikketsamfélagið á Íslandi hefur stækkað og dafnað á undanförnum árum. Úrvalsdeildin fer af stað af krafti á Víðistaðatúni í Hafnarfirði og landsliðið undirbýr sig undir ferð til Rómarborgar þar sem það mun mæta landsliði Páfagarðs.

Krikket á Íslandi á sér um 20 ára sögu en Krikketsambandið var stofnað fyrir rúmum áratug. Í dag eru liðin fjögur, Víkingarnir frá Reykjavík, Lundarnir frá Kópavogi, Hamrarnir frá Hafnarfirði og hið nýstofnaða Eldfjall í Vesturbænum.

Bala Kamallakharan, formaður sambandsins, segir að iðkendurnir séu um 75 í dag. Langflestir eru þeir innflytjendur frá löndum breska samveldisins. Til dæmis Bretlandi, Indlandi, Pakistan, Suður-Afríku og Ástralíu. Einnig tveir Íslendingar.

„Við erum að reyna að vekja vitund um að það sé hægt að spila krikket á Íslandi,“ segir Bala. „Meðal annars höfum við haldið tvö námskeið fyrir krakka og hafið samtal við stóru íþróttafélögin um mögulegt samstarf.“

Fyrstu árin var keppt á Klambra­túni en nú fara leikirnir fram á Víðistaðatúni í Hafnarfirði. „Heima í Indlandi þurftum við aðeins kylfu, bolta og ímyndunaraflið,“ segir Bala. „Það er gott að hafa stóran völl eins og Víðistaðatún til að spila á.“

Auk Úrvalsdeildarinnar eru fjórar aðrar árlegar keppnir og landsliðið hefur keppt á erlendri grundu í fimm ár. Bala segir að starfið sé fjármagnað með árgjöldum iðkenda og styrkjum frá fyrirtækjum og stofnunum. Einnig hafi sambandið nýtt sér hópsöfnun á netinu.

Bala Kamallakharan formaður Krikketssambands Íslands.

„Við erum með 20 þúsund fylgjendur á Twitter og nýtum okkur það, til dæmis til þess að streyma útsendingum af leikjum,“ segir Bala. „Við eigum aðdáendur úti um allan heim sem vilja sjá leikina og kaupa treyjur.“

Landsliðið mun æfa í júní og taka á móti bresku liði í júli. Í október heldur liðið til Ítalíuskaga til að spila við landslið Vatíkansins, minnsta ríkis heims. En það lið skipa prestar, djáknar og guðfræðinemar í Rómarborg.

„Krikket er sú íþrótt sem er að vaxa hvað hraðast í Evrópu,“ segir Bala. Hefur sambandið unnið að því að koma Íslandi í heimssambandið ICC. Þá er á döfinni að stofna kvennadeild og koma æfingum fyrir börn á laggirnar. „Okkar takmark er að gera Ísland að krikketþjóð.“