Lík­lega verður hægt að gefa út hættu­mat við Múla á Seyðis­firði í næstu viku. Í til­kynningu frá lög­reglunni á Seyðis­firði segir að túlkun líkan­reikninga sé langt komin og að hættu­matið verið gefið út í byrjun næstu viku. Verk­fræði­stofan Efla hefur skilað inn land­líkani með bráða­birgða­vörnum fyrir byggð innan Búðar­ár og næst á dag­skrá er að kanna virkni þeirra með líkan­reikningum.

Þá er unnið að því að gera rýmingar­kort og leið­beininga­blöð sem verða borin í hús á Seyðis­firði. Þar má finna, meðal annars, ráð til íbúa um hvernig eigi að bera sig að komi til rýmingar.

Enn er tals­verð vinna fram undan vegna hreinsunar og upp­byggingar á Seyðis­firði. Í til­kynningu frá lög­reglunni á Austur­landi segir að síðustu vikuna hafi að mestu verið unnið á svæði við Slippinn við að stækka þrónna og færa efni yfir í syðri varnar­garðinn og stækka hann. Þá segir að hönnun á ræsi og skurði við Hafnar­götu sé lokið og nú sé ræsa­efni komið á staðinn. Sökum bleytu hefur verk að­eins tafist frá því á mið­viku­dag en verður fram haldið á fullu þegar skil­yrði lagast.

Stöðu­fundur var haldinn í gær með lög­reglu, al­manna­varna­deild ríkis­lög­reglu­stjóra, full­trúum Múla­þings, Veður­stofu, full­trúa heima­stjórnar á Seyðis­firði og fleirum. Farið var að venju yfir gang hreinsunar­starfs, bráða­birgða­hættu­mat og líkan­reikninga, vöktunar­mæla, rýmingar­kort og fleira.

Þá segir í til­kynningu að á­fram sé unnið að út­færslu á þverun Búðar­ár og Hafnar­götu og við undir­búning varna við Botna­hlíð.

Í kjöl­far skriðanna sem féllu fyrir ára­mót var sett upp nýtt mæla­kerfi sem hefur verið að skila gögnum og er fylgst með því dag­lega. Þá er búið að setja upp fleiri GPS-tæki og spegla á næstu vikum þannig að mæla­kerfið verði til fyrir vor­leysingar.