Verkefnið ber vinnuheitið Niceair og er undirbúningsvinnan langt á veg komin. Á dögunum veitti Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra verkefninu styrk til þess að kanna til fullnustu hvort verkefnið beri sig. Meginaðstandendur verkefnisins eru Samherji, Höldur og Norlandair en að auki eru önnur norðlensk fyrirtæki og hagsmunaaðilar verkefninu til stuðnings.

„Við erum sannfærð um að grundvöllur sé fyrir áætlunarflugi milli Evrópu og Íslands um Akureyrarflugvöll og ætlum að nýta tímann til kostgæfnisathugana áður en næstu skref verða tekin í lok apríl. Reynsla annarra flugfélaga, eins og Transavia og Titan Airways, bendir til þess að eftirspurnin sé til staðar,“ segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, sem leiðir verkefnið fyrir hönd fjárfesta. Hann bendir á að upptökusvæði í kringum flugvöllinn sé hið sama og í Færeyjum en þaðan séu að lágmarki fjögur millilandaflug á degi hverjum. Að auki sé stígandi í komu ferðamanna til svæðisins.

Að sögn Þorvalds er millilandaflug um Akureyrarflugvöll risastórt hagsmunamál. Ekki bara fyrir ferðamenn til og frá Akureyri heldur ekki síður atvinnulífið. „Það eru mörg öflug fyrirtæki á svæðinu sem starfa við útflutning og það kallar á ferðalög starfsfólks til meginlandsins. Það yrði gríðarleg hagræðing fyrir þessi fyrirtæki ef þau gætu sparað sér ferðalag starfsfólk til Keflavíkur. Þetta myndi hjálpa til við að jafna aðstöðumuninn við fyrirtæki á suðvesturhorninu,“ segir Þorvaldur. „Við erum einnig að gefa okkur að fyrir þau 50 þúsund manns sem þurfa að aka í 6-9 klukkustundir til að komast í millilandaflug í Keflavík, gista eina eða tvær nætur og verja í það tveimur vinnudögum, muni ferðahegðun heimamanna breytast hratt. Reynslan af Suðvesturhorninu sýnir að minnsta kosti fram á það.”

Hann bendir á að á meðan samdráttur sé í komu ferðamanna til Keflavíkur sé raunveruleikinn allt annar fyrir norðan. „Hér hefur verið mikil aukning flugfarþega undanfarin ár. Í fyrra var aukningin tæplega 40 prósent og rúmlega 70 prósent árið áður,“ segir Þorvaldur.

Margt bendir til þess að annar hópur erlendra ferðamanna hafi áhuga á flugi til Akureyrar en til Keflavíkur. „Þetta eru oft endurkomuferðalangar, sem hafa þegar skoðað suðvesturhornið og vilja upplifa eitthvað nýtt. Einnig eru þetta ferðamenn sem hafa áhuga á að ferðast hingað á vetrartíma, meðal annars til þess að fara á skíði. Það er því okkar trú að allir muni hagnast á því ef önnur gátt er opnuð inn í landið. Þetta er þjóðhagsmál,“ segir Þorvaldur.

Hann segir aðstandendur Niceair mjög meðvitaða um að fjármögnun fyrirtækisins þurfi að vera traust enda fer öll óvissa um rekstrarhæfi flugfélaga illa í mögulega viðskiptavini. „Ef af verkefninu verður þá er ljóst að við munum tryggja fjármagn til þess að reka félagið svo lengi sem á þetta skal láta reyna, eða 24-36 mánuði, þannig að flugfarþegar geta óhræddir bókað flug fram í tímann, ef af verður.“

Helsta hindrunin varðandi áætlanir félagsins sé Akureyrarflugvöllur. Hann sé löngu sprunginn og nauðsynlegt sé að fjárfesta í uppbyggingu vallarins. „Það voru gríðarleg vonbrigði að sjá að ekki ætti að setja neitt fjármagn í uppbyggingu hér. Uppsöfnuð þörf er um 2,5 milljarðar króna og algjörlega fráleitt að sú þörf sé hunsuð. Ekki bara út frá ferðamennsku heldur er líka mikilvægt, út frá öryggissjónarmiðum, að til sé fullbúinn varaflugvöllur fyrir Keflavík.

Umferð um Keflavík hefur þrefaldast á tíu árum, á sama tíma og stjórnvöld hafa skorið niður fjármagn til varaflugvalla Keflavíkur,“ segir Þorvaldur. Nýleg dæmi afjúpi neyðarástand þegar Keflavík lokast. Hann sé þó vongóður um að stjórnvöld muni sjá að sér í málinu.

Eins og áður segir er undirbúningsvinna í fullum gangi og reiknar Þorvaldur með að tíðinda sé að vænta í lok apríl.