Hyllir undir nýtt skref í orkuskiptum landsmanna. Eftir miklu að slægjast í umhverfislegu tilliti.

Íslenskt fyrirtæki hefur gert fjármögnunarsamning við þýskan innviðasjóð í umsjón Prime Capital AG um uppbyggingu vetnisinnviða hér á landi. Um mjög stóra fjárfestingu er að ræða, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Félagið, Vetnis Iceland, stefnir að uppsetningu prufukerfa næsta ár. Markmiðið er að undirbyggja innleiðingu á afhendingu eldsneytis fyrir hundruð atvinnutækja, svo sem strætisvagna, rútur, trukka og dráttarbíla.

Auðun Freyr Ingvarsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að vetnisvædd þung atvinnutæki verði losunarlaus. Starfrækt verði tækjaleiga til að hjálpa fyrirtækjum sem vilja minnka losun. Fram til þessa hafi stór atvinnutæki hér á landi nær alfarið gengið fyrir dísilolíu.

Uppbyggingin er fyrirhuguð í samvinnu við Samskip og fleiri fyrirtæki. Stefnt er að því að vetnisafgreiðslustöð verði á hafnarsvæði Faxaflóahafna í Kjalarvogi. Verkefnið yrði hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og styður við innleiðingu fyrstu stóru atvinnutækjanna sem keyra á grænu vetni.

Vetnishleðslustöð fyrir lestar í Þýskalandi, myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint.
Mynd/getty

Vetni hentar vel fyrir þyngri atvinnutæki

Miðað er við að vetnið yrði framleitt úr hreinu íslensku vatni og hreinni íslenskri raforku með rafgreiningu. Vetni hentar að sögn Auðunar betur sem orkugjafi fyrir þyngri og stærri ökutæki sem keyra langar vegalengdir þar sem rafhlöður eru óhentugar vegna eigin þunga og hleðslutíma.

„Innviðir til að hlaða stór tæki kalla á gríðarlega öfluga tengingu,“ segir Auðun.

Rafhlöður hafa reynst hentugar í minni rafbíla en ef litið er til áætlana bílaframleiðenda bendir að sögn Auðunar margt til að innan tíðar verði minni ökutæki að stærstum hluta rafdrifin með rafhlöðum, en stærri flutningatæki aðallega rafdrifin með vetni.

Heildarlosun CO2 á ábyrgð íslenskra stjórnvalda er þrjár milljónir tonna á ári. Þar af er um ein milljón tonna á ári frá samgöngum. Stórir flutninga- og fólksflutningabílar losa 250.000 tonn á ári.

„Ætla má að notkun vetnis í samgöngum hér á landi gæti sparað 200–300.000 tonn af CO2 á ári, eða allt að 33 prósent af losun í samgöngum,“ segir Auðun.