Janúarráðstefna Festu er haldin á Nordica næsta fimmtudag. Það er í tíunda sinn sem ráðstefnan er haldin en í ár er yfirskrift hennar Lítum inn á við. Framkvæmdastýra Festu, Hrund Gunnsteinsdóttir, segir marga spennandi fyrirlesara vera á ráðstefnunni í ár.

Meðal fyrirlesara eru Friðrik R. Jónsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra og Tinna Hallgrímsdóttir, forseti Ungra umhverfissinna. Ráðstefnan er stærsta ráðstefnan sem haldin er hér árlega á landi um sjálfbærni.

„Sjálfbærni er í dag byggð á fjórum stoðum. Jörð, náttúru, góðum stjórnarháttum og velsæld og það á við um allt samfélagið því allur heimurinn er að fara í gegnum umbreytingarferli. Ráðstefnan á því við um alla á vinnumarkaði og þá þróun sem á sér stað í samtímanum. Bæði þegar kemur að jöfnuði, réttlátari umskiptum og því hvernig við framleiðum og ræktum og hvað við borðum,“ segir Hrund en þau sem sækja ráðstefnuna eru að miklu leyti frá um 180 aðildarfélögum Festu en einnig fólk frá ýmsum stofnunum og fyrirtækjum sem eru það ekki. „Svo er sérstakt tilboð fyrir háskólanemendur,“ segir Hrund.

Hún segir einnig mjög mikilvægt að huga að því að laga- og regluverk sé að breytast, einnig kröfur um upplýsingagjöf um sjálfbærni í rekstri og að fólk verði að kynna sér það og það verði eitt af því sem verður rætt á ráðstefnunni.

Hrund tók við hlutverki framkvæmdastjóra árið 2019 og segir að á þessum stutta tíma hafi margt breyst.

„Lítið dæmi er að við höfum þrefaldast að stærð á þessum stutta tíma. Atvinnulífið er að átta sig betur á þessari þróun sem er orðin hraðari,“ segir Hrund og segir það eins eiga við opinberar stofnanir og fyrirtæki.

Hún starfaði áður alþjóðlega og þekkir málaflokkinn vel. Hún segir að í heimsfaraldri hafi sjálfbærni komist á dagskrá af miklu meiri krafti og áður og nú séu meiri fjárfestingar.

„En ef við tökum púlsinn á stöðunni í heiminum í dag þá er hún ekkert sérstaklega góð. Covid setti heimsmarkmiðin langt aftur, innrásin í Úkraínu er að valda rosalegum hristingi þegar kemur að orkumálum og afturför til kola- og gass en á sama tíma er verið að gera meira í endurnýjanlegri orku,“ segir Hrund og að hvað varðar til dæmis árangur þegar kemur að hringrásarhagkerfinu hafi hann dregist saman á síðasta ári alþjóðlega.

„Það er ekki jákvætt,“ segir Hrund og nefnir sérstaklega slæmar fréttir af auknum krafti í notkun jarðefnaeldsneytis.

„En við þurfum að fagna því hvað heimurinn er flókinn og það er mikið undir mannkyninu komið hvert við stefnum. Við höfum það mikla stjórn á náttúru og vistkerfum heimsins núna. Hlýnunin er af mannanna völdum og á sama hátt er það í okkar höndum hvernig er unnið úr þessu. Ég hef ekki öll svörin en það sem ég vel að gera á hverjum degi er að kynna mér það sem verið er að gera, hafa trú á mannkyninu og hugrekki þess til að gera hlutina öðruvísi.“

Hér er hægt að nálgast upplýsingar um ráðstefnuna.

Fréttin hefur verið leiðrétt. Johan Rockström, Kate Raworth eru ekki fyrirlesarar á ráðstefnunni. Þá stóð að Festa væri sjóður en það er ekki rétt. Festa eru frjáls félagasamtök. Leiðrétt klukkan 09:26 þann 24.01.2023.