Hjónin Ásdís Pálsdóttir og Ágúst Sigurðsson, bændur á Geitaskarði í Langadal í Austur-Húnavatnssýslu, eru ósátt við að þurfa að manna göngur í sauðfjársmölun. Þau hafi ekki átt sauðfé í um tuttugu ár en hafi alla tíð þurft að manna þrjá til fjóra í göngur til að smala annarra manna fé.

„Við höfum ekki gert athugasemdir við, né ætlum okkur að gera athugasemdir við, beit í fjallinu eða Skarðinu, en það hlýtur að teljast eðlilegt að þeir sem eiga skepnur á beit í sumarhögum eigi að sjá um að smala þeim til byggða,“ segir í bréfi hjónanna á Geitaskarði sem sent var Blönduósbæ í byrjun síðasta mánaðar. „Við sem eigum enga kind eigum þó að láta þrjá menn í að smala skarðið á haustin og greiðum þar að auki verulegt landgjald sem var lagt á þegar sauðfé tók að fækka á svæðinu.“

Nú fer í hönd tími leita og gangna vítt og breitt um landið þar sem fé er heimt af fjalli. Fjölmargir sinna þeirri vinnu ár hvert, jafnt sauðfjárframleiðendur og jarðeigendur. Hjónunum þykir hins vegar samfélagið hafa breyst. „Okkur þætti eðlilegt að það sé einhvers metið af samfélaginu að okkar eignarland hafi verið nýtt sem afréttur fyrir sauðfé sveitunga okkar áratugum saman. Fram til þessa hefur þetta verið einskis metið, við höfum borgað full fjallskil og lagt til þrjá menn nú síðustu ár. Þarna hefur verið eins og í svo mörgu farið eftir gömlum hefðum og ekki tekið tillit til breytinga í samfélaginu,“ segir í bréfinu.

„Með fækkun sauðfjárbúa hefur reynst erfiðara að manna göngur vítt og breitt um landið til að heimta fé af fjalli. Landeigendur eru í fjallskilalögum skyldugir til að manna göngur og smala sitt land óháð því hvort þeir eigi sauðfé. Fjallskilalögin eru þó komin til ára sinna og því eðlilegt að þau lög verði tekin til endurskoðunar,“ segir Guðfinna Harpa Árnadóttir, formaður Landssambands sauðfjárbænda, en hún er sauðfjárbóndi að Straumi í Hróarstungu. „Hins vegar er mikilvægt að skyldur fylgi því að eiga land, þó skyldurnar séu kannski ekki þær að reka annarra manna fé. Til að mynda hafa margir takmarkað aðgang að eigin landi og því kannski eðlilegt að þeir sjái um að smala sínar jarðir.“

Valdimar Hermannsson, sveitarstjóri Blönduósbæjar, segir málið ekki hafa verið afgreitt af bænum og sé enn til umfjöllunar. „Byggða­rráð hefur nú fengið umfjöllun og álit landbúnaðarnefndar sveitarfélagsins, og mun á næstunni eiga samskipti við bréfritara, ásamt því að fá lögfræðiálit á erindinu, áður en það kemur til formlegrar afgreiðslu, eða staðfestingar,“ segir Valdimar í skriflegu svari til Fréttablaðsins.