„Henni líður vel og nýtur hversdagsins en það er mikið frá henni tekið í vitrænni getu og hún á orðið mjög erfitt með að halda uppi samræðum. Sjúkdómurinn tekur yfir fleiri og fleiri þætti líkamsstarfseminnar og hún á orðið erfiðara með að hreyfa sig. Það hefur dregið mikið af henni en hún er enn ánægð að sjá mig eða vini sem koma í heimsókn.“

Magnús hefur talað um hversu undarlegt það sé að sakna manneskju sem enn er hjá þér.

„Mér finnst gott að ná í myndbandið af ræðunni hennar eða viðtal sem Edda Andrésdóttir tók við hana skömmu eftir að hún var greind og sjá hana svona glæsilega og flotta. Finna aftur það element hjá henni sem er um margt horfið, þó að það glitti alltaf í sama persónuleikann. Það sem er erfiðast við þennan sjúkdóm er hvað þetta er langt kveðjuferli og það er erfitt að átta sig á að maki manns er orðinn allt annar en hann var.

Ástin breytist

„Ástin breytist, þessar rómantísku og erótísku tilfinningar umbreytast yfir í alltumvefjandi umhyggju. Ástin er sterk, en hún er öðruvísi. Þá kemur auðvitað upp söknuðurinn eftir því og það er erfitt.“

Það eru sex ár frá því að Ellý greindist og við Magnús erum sammála um að sex ár séu bæði stuttur og langur tími.

„Ef ég hefði vitað þá að við ættum fram undan fimm góð ár hefði maður verið ánægður með það. En svo finnst manni líka sorglegt hversu hratt tíminn hefur liðið. En þrátt fyrir allt held ég að við sem göngum í gegnum þetta fáum líka eitthvað ómetanlegt í reynslubankann.