Kínversk stjórnvöld hafa greint frá dauða þriggja manna af völdum Covid í Shanghai. Það er í fyrsta sinn sem greint er opinberlega frá dauðsföllum vegna veirunnar síðan að borginni var lokað og útgöngubann sett á í lok mars. Í tilkynningunni kemur fram að fórnarlömbin hafi verið á aldrinum 89 til 91 árs og óbólusett. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Hingað til hefur Kína haldið því fram að enginn hafi dáið af völdum Covid í borginni – nokkuð sem flestir draga í efa. Tímasetning þessarar tilkynningar þykir undarleg. Hvers vegna þessar hörðu aðgerðir á meðan engin dauðsföll, nema þessi þrjú, hafi orðið í Shanghai þar sem búa 25 milljónir manna.

Frá því að Omicron-faraldur hófst fyrir þremur vikum síðan hefur borgin verið lokuð og milljónir íbúa hafa verið bundnir við heimili sín. Þessar hörðu aðgerðir hafa reitt fólk til reiði. Fólk hefur þurft að panta mat og vatn og bíða lengi eftir að verslanir eða stjórnvöld færi þeim grænmeti, kjöt og fleiri nauðsynjar.

Myndböndum er dreift á samfélagsmiðlum, þar sem heyra má óp borgara í Shanghai úr íbúðum sinum í háhýsum í mótmælaskyni vegna ástandsins.

Enn greinast meira en 20.000 ný tilfelli á dag.

Skólum og sýningarsölum í Shanghai hefur verið breytt í sóttvarnarstöðvar og bráðabirgðasjúkrahús.