Breyttar reglur um undanþágu við hefðbundinni sóttkví fyrir einstaklinga sem þegið hafa örvunar­skammt bóluefnis gegn Covid-19 fara ekki í bága við persónuverndarlög, að sögn Helgu Þórisdóttur, forstjóra Persónuverndar.Í síðustu viku tóku gildi breyttar reglur um undanþágu við hefðbundinni sóttkví fyrir þríbólusetta einstaklinga.

Gilda sérreglur í fimm daga sem gerir viðkomandi kleift að stunda vinnu og mæta í skóla.Helga segir undanþáguna ekki brjóta gegn persónuverndarlögum með því að vinnuveitendur komist að því hvort starfsmenn séu bólusettir eða ekki. Málið geti þó varðað einkalífshagsmuni fólks.

„Viðvera, eða eftir atvikum fjarvera, starfsmanna felur sem slík ekki í sér vinnslu persónuupplýsinga. Þessar upplýsingar geta vissulega varðað einkalífshagsmuni og þá þarf að meta hvort eigi að ganga framar, almannahagsmunir af því að atvinnustarfsemi liggi niðri í stórum stíl vegna sóttkvíar starfsmanna eða einkalífshagsmunir starfsmanna af því að þeir sem sitja heima séu ekki fullbólusettir eða óbólusettir,“ segir Helga í svari.

Öðru máli gegni ef atvinnurekendur færu að skrá upplýsingarnar með nákvæmum hætti í sín kerfi. „Þá þarf að fara að persónuverndarlögum,“ segir Helga Þórisdóttir