Ríkisstjórnin hefur markvisst fækkað embættisbústöðum undanfarin ár. Þetta kemur fram í svari Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra við fyrirspurn Ingibjargar Isaksen, þingmanns Framsóknarflokksins. Hún spurði hvort til greina kæmi að kaupa húsnæði fyrir lögreglumenn í dreifðum byggðum til að betur gengi að manna stöður. Illa hefur gengið að manna lögregluna á Langanesi.

Í svarinu kemur fram að enn þekkist að embættisbústaðir séu til afnota á landsbyggðinni en þeim fari hratt fækkandi og séu aflagðir þegar viðkomandi starfsmaður lætur af störfum.

Jón segir vel koma til greina að húsnæðis verði aflað til að leysa vandann á Langanesi. Slíkt verði þó að vera undantekning en ekki varanlegt úrræði.