Heilbrigðisráðuneytið veitti í gær fyrirtækjum í stóriðju, sjávarútvegi, matvælaframleiðslu og annarri starfsemi, sem sögð er mikilvæg, undanþágu frá hina herta samkomubanni.

Um er að ræða undanþágur frá því að ekki séu fleiri en tuttugu sem koma saman í einu og því að minnst tveggja metra bil sé milli manna.

„Undanþágur eru því aðeins veittar að afar brýnir hagsmunir liggi að baki sem varði velferð almennings og þjóðarhag,“ segir í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu. Flestum beiðnum hafi verið hafnað.

Undanþágur bundnar ströngum skilyrðum

Undanþágurnar eru sagðar veittar eftir samráð við sóttvarnalækni, almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra og Matvælastofnun og bundnar ströngum skilyrðum. Horft sé til viðmiða sóttvarnalæknis við veitingu undanþága frá sóttkví. „Þau felast í því að um sé að ræða samfélagslega ómissandi innviði sem mega ekki stöðvast vegna lífsbjargandi starfsemi, svo sem raforku, fjarskipta, samgangna, heilbrigðisstarfsemi, löggæslu, sjúkraflutninga og slökkviliða.“

Þá getur önnur kerfislega og efnahagslega mikilvæg starfsemi fengið undanþágu til að tryggja innviði, sorphirðu, aðföng, mætvælaframleiðslu, flutninga matvæla, lyfja og annarra nauðsynjavara eða efnahagslegt öryggi ríkisins með útflutningi.