Una Hildardóttir, varaþingmaður vinstri grænna og formaður lýðræðis- og mannréttindanefndar Mosfellsbæjar, sækist eftir í 1.-2. sæti í komandi forvali VG í Suðvesturkjördæmi. Segir hún að auka þurfi þátttöku og sýnileika ungs fólks og þá sérstaklega ungra kvenna í stjórnmálum.

„Ég vil beita mér í auknum mæli fyrir mannréttindum, velferðarmálum og jöfnuði, einkum á milli kynslóða. Við uppbyggingu eftir efnahagskreppu heimsfaraldurs er mikilvægt að horfa sérstaklega til stöðu ungs fólks, kvenna og jaðarsettra hópa. Halda þarf áfram á góðri og tryggri vegferð með Vinstri græn í forystu, ganga lengra í velferðar- og jafnréttismálum og setja enn meiri kraft í baráttu okkar gegn loftslagsvánni,“ segir Una í tilkynningu til fjölmiðla.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra og Ólafur Þór Gunnarsson þingmaður vilja einnig leiða lista Vinstri grænna í Kraganum.

Una er uppalin í Mosfellsbæ þar sem hún býr í dag ásamt eiginmanni sínum og dóttur. Hún er fyrsti varaþingmaður flokksins í kjördæminu og hefur tekið sæti á þingi sjö sinnum á kjörtímabilinu en hún hefur verið virk í starfi vinstri grænna frá árinu 2011.

Fyrstu þrjú árin var hún í stjórn Ungra vinstri grænna og síðar sem gjaldkeri VG frá 2016 til 2019. Í dag situr hún í flokksráði hreyfingarinnar og hefur sinnt ýmsum öðrum trúnaðarstörfum fyrir hreyfinguna, til að mynda sem formaður svæðisfélags VG í Mosfellsbæ og kosningastýra Ungra vinstri grænna í alþingiskosningum 2013.

Einnig hefur hún setið fyrir svörum á upplýsingafundi almannavarna þar sem hún hefur flutt mál ungs fólks í kórónaveirufaraldrinum sem forseti Landssambands ungmennafélaga.

Una á fundi almannavarna í ágúst 2020.
Ljósmynd/lögreglan

Í tilkynningu á Facebook segist Una hafa óskað þess að fleiri konur hefði boðið sig fram.

Síðastliðna mánuði hef ég sjálf skorað á kraftmiklar konur í kringum mig að taka þátt í forvölum, prófkjörum og uppstillingum, en færri en ég óska hafa brugðist við. Það er mikilvægt að við sem hvattar eru áfram, viljum og getum boðið fram krafta okkar, bregðumst við því trausti með því að sækjast eftir áhrifastöðum,“ skrifar hún.